17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5835 í B-deild Alþingistíðinda. (3933)

290. mál, fjarkennsla

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. menntmrh. sem svo er orðuð:

„1. Hvað líður undirbúningi þess að skipulagt verði nám sem fólk geti stundað heima og í hjáverkum með aðstoð sjónvarps og myndbanda, síma- og tölvutækni?

2. Mun ráðherra gera tillögu um fjárveitingar í þessu skyni við undirbúning næstu fjárlaga?"

Eins og margir hv. þm. hafa tekið eftir hefur verið gerð grein fyrir því í fjölmiðlum að ætlunin sé að koma hér upp fræðsluútvarpi. Ég álít að þar sé um stórmerkilega starfsemi að ræða og með ólíkindum hve lengi hefur dregist að starfsemi af því tagi væri skipulögð hjá Ríkisútvarpinu. En það er löng saga þar að baki eins og margir þekkja.

Spurning mín lýtur eiginlega frekar að framhaldinu. Spurningin lýtur að því hvort ekki verði um samstarf við Háskóla Íslands að ræða í tengslum við þessa starfsemi, hver verði hlutdeild Háskólans, hvort ekki verði um að ræða kerfisbundið nám og þá um leið námsframboð sem geti nýtt sér myndbandatækni.

Ég álít að það sem þegar hefur gerst í þessum málum sé ekki óeðlileg byrjun, en ég legg á það þunga áherslu að við ætlumst til þess með breyttri tækni að á þessu sviði gerist eitthvað annað og stærra en að sett verði upp fræðsluútvarp í nýjum búningi.

Ég minni á þáltill. sem ég hef tvívegis flutt á Alþingi um fjarkennslu á vegum Háskóla Íslands. Því miður var sú till. mín ekki samþykkt hér í þinginu. Hins vegar skipaði þáv. hæstv. ráðherra nefnd til að gera tillögur um þessi mál og skipulagningu þeirra á komandi árum. Ég tel brýnt að nefndin og ráðherrann geri grein fyrir hvað áformað er á þessu sviði.

Fsp. mín er í raun réttri eins konar ósk um að okkur berist fyrstu fréttir af framhaldsáformum þessarar nefndar og menntmrn. sem yfirstjórnanda hennar.