17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5835 í B-deild Alþingistíðinda. (3934)

290. mál, fjarkennsla

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvað líður undirbúningi þess að skipulagt verði nám sem fólk geti stundað heima og í hjáverkum með aðstoð sjónvarps og myndbanda, síma- og tölvutækni?"

Svar: Í kaflanum um menningar- og menntamál í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er vikið að þessu efni með eftirfarandi orðum:

„Aukin áhersla verði lögð á fullorðinsfræðslu, símenntun og endurmenntun. Í því skyni verði ný tækni hagnýtt í samræmdu átaki skólayfirvalda, Ríkisútvarps, Námsgagnastofnunar og samtaka vinnumarkaðarins. Dreifikerfi Ríkisútvarpsins verði nýtt til fjarkennslu.“

Fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson skipaði 20. febr. 1986 nefnd til að kanna hvort hagkvæmt væri að hefja fjarkennslu hér á landi og ef svo væri með hvaða hætti. Nefndin skilaði áliti sínu í febrúar 1987 og var því dreift á Alþingi. Hún lagði m.a. til að skipuð yrði framkvæmdanefnd til að koma á skipulegri fjarkennslu hér á landi. Framkvæmdanefnd um fjarkennslu var síðan skipuð 19. júní 1987 og er formaður hennar Jón Torfi Jónasson dósent. Verkefni nefndarinnar eru samkvæmt erindisbréfi:

Að efna til fjarkennslu í samráði við ráðuneyti, skóla og aðrar fræðslustofnanir eftir því sem fjárráð leyfa,

að veita þeim aðilum, sem áhuga hafa á fjarkennslu, ráðgjöf þar að lútandi og stuðla að framgangi málsins,

að tryggja sem besta nýtingu tæknibúnaðar og sérfræði sem þegar er til í landinu og vinna að öflun nýrrar aðstöðu,

að hafa forgöngu um samstarf milli þeirra stofnana sem vilja nýta fjarkennslu eftir því sem ástæða þykir til,

að stuðla að námskeiðahaldi um tæknileg atriði varðandi fjarkennslu,

að gera árlegar tillögur um fjárframlög til starfsnefndarinnar.

Í samræmi við erindisbréfið markaði framkvæmdanefndin sér í upphafi þá stefnu að standa ekki sjálf fyrir kennslu heldur fela öðrum framkvæmd þeirrar fjarkennslu sem ráðist yrði í fyrir hennar tilstuðlan sem og að skapa þeim aðilum sem stunda vilja fjarkennslu aðgang að fjölmiðla- og dreifitækni til fjarkennslunnar.

Þann 1. febr. sl. réði nefndin dr. Sigrúnu Stefánsdóttur fjölmiðlafræðing sem framkvæmdastjóra. Er hún að hluta starfsmaður nefndarinnar og að hluta starfsmaður Ríkisútvarpsins vegna þess samstarfs sem tekist hefur milli þessara aðila um fjarkennslu í Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi og sjónvarpi.

Laugardaginn 19. mars nk. verður kynningardagskrá um fjarkennslu í Ríkisútvarpinu/sjónvarpi og hefjast þá jafnframt fyrstu kennsluútsendingarnar og er áætlað að þær standi út maímánuð. Unnið er að undirbúningi útsendinga í Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi. Ég hef jafnframt beint þeim tilmælum til nefndarinnar að kannaðir verði möguleikar á samstarfi um fjarkennslu við aðrar hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar.

Rétt er að það komi skýrt fram að sú fjarkennsla í sjónvarpi sem hefst í þessum mánuði er tilraunastarfsemi þar sem reynt verður að hafa sem mesta breidd í efnisvali, en vonir standa til að hægt verði að koma ákveðnum þáttum fjarkennslunnar í fast form með haustinu. Hafin er undirbúningsvinna fyrir skipulega kennslu í íslensku, stærðfræði og fleiri greinum fyrir fjarkennslu næsta vetur. En einn þáttur í þeirri fjarkennslu sem reynd verður nú í upphafi er kynningarefni fyrir nemendur og foreldra vegna undirbúnings grunnskólaprófa í vor.

Að auki hefur framkvæmdanefnd um fjarkennslu til athugunar fjölda tillagna um stutt námskeið og raðir kennsluþátta á ýmsum sviðum. Að sjálfsögðu á að nota nýjustu tækni til fjarkennslu mismunandi, en gróflega má flokka fyrirhugaða fræðslu á eftirfarandi hátt:

1. Kennsla í tilteknum námsþáttum á ýmsum stigum skólakerfisins til áfanga- eða lokaprófa eftir atvikum.

2. Almennir kynningarþættir, en einnig mjög sérhæft efni, einkum tengt atvinnulífinu.

3. Almennir fræðsluþættir án skilgreindra markhópa.

Kostnaður, undirbúningsvinna og notkun tæknibúnaðar verður mjög mismunandi eftir markmiði kennslunnar í hverju tilviki. Þau atriði sem fyrirspyrjandi nefnir, svo sem sjónvarp, myndbönd, síma- og tölvutækni, eru öll mjög mikilvæg og verða að nýtast sem best, en þau eru þó aðeins ein hlið málsins. Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að bækur og annað prentað efni sem og mannleg samskipti í formi funda eða námskeiða geta ráðið úrslitum um hvernig til tekst með skipulega fjarkennslu. Skipulag og framkvæmd fjarkennslu krefst vandaðs undirbúnings og þungarniðja starfsins mun ekki sjást í fjölmiðlum. Kennsla tiltekinna námsþátta innan skólakerfisins mun væntanlega vega þungt þegar fram í sækir og skipta miklu fyrir þá hópa sem ekki hafa aðgang að hefðbundinni kennslu. Fjarkennsla fyrir fólk í hjáverkum og heimahúsum mun krefjast mikillar vinnu og aga eins og allt annað alvörunám.

Spurt er í öðru lagi: „Mun ráðherra gera tillögu um fjárveitingar í þessu skyni við undirbúning næstu fjárlaga?"

Svar: Já, það hef ég í hyggju en ákvörðun hefur ekki verið tekin um ákveðnar upphæðir í því sambandi. Í erindisbréfi framkvæmdanefndar um fjarkennslu segir m.a., eins og ég nefndi áðan, að það skuli gera árlega tillögur um fjárframlög til starfa nefndarinnar. á fjárlögum þessa árs eru 6 millj. 335 þús. kr. í þessu skyni og er það á sérstökum fjárlagalið Háskóla Íslands. Gerð mun tillaga um fjárveitingu fyrir árið 1989 í samræmi við væntanlegar tillögur framkvæmdanefndarinnar. Framkvæmdanefndin reynir nú að leggja af mörkum tæknilega aðstoð við gerð myndefnis og standa straum af framleiðsluhliðinni á meðan viðkomandi stofnun kostar gerð handrita að kennsluefni og greiðir laun þeirra er fram koma í þáttunum. Nefndin mun greiða um 40 þús. kr. fyrir hverja útsenda klukkustund í Ríkisútvarpi, sjónvarpi en ekkert til útsendinga í hljóðvarpi, en þar þarf að greiða alla undirbúningstæknivinnu. Þar sem hefðir í sambandi við fjárveitingar hafa enn ekki skapast er vert að hugleiða vandlega hvernig haga skuli þessum málum í framtíðinni.

Ég tel ekki vænlegt að framkvæmdanefnd um fjarkennslu sjái um greiðslur til Ríkisútvarpsins og þeirra aðila sem koma vilja efni á framfæri. Eðlilegast virðist að nefndin hafi fjármagn til samhæfingar og aðstoðar við að koma nýjungum af stað en að Ríkisútvarpið fjármagni sjálft sína hlið málsins og að þær stofnanir eða samtök sem vilja koma efni á framfæri kosti vinnu við það sjálf og fái til þess fjárveitingar eftir atvikum.