17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5838 í B-deild Alþingistíðinda. (3936)

291. mál, tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Norræni fjárfestingarbankinn hefur reynst farsæl stofnun og mikilvægur árangur norrænnar samvinnu. Hagur bankans hefur eflst með árunum og Norðurlandaþjóðir sem aðrar þjóðir notið góðs af því. Það kom því mjög á óvart þegar ljóst varð að bankinn hafði orðið að afskrifa 6 millj. þýskra marka, eða öllu heldur svokallaðs SDR gjaldmiðils, vegna gjaldþrots Kongsbergs Våpenfabrikk í Noregi á síðasta ári, en verksmiðjan hafði tekið umrætt lán vegna framleiðslu á hlutum í bifreiðir fyrir Volvo. Er þetta fyrsta tap í sögu bankans.

Verksmiðjan er hlutafélag þar sem norska ríkið er eigandi meiri hluta hlutabréfa. Norska þingið kaus að gera hlutafélagið gjaldþrota en stofnaði samstundis nýtt með framlagi að upphæð 900 millj. norskra kr.

Í stofnskrá bankans frá 1976 eru ströng ákvæði um að ekki megi veita lán án þess að krafist sé ríkistrygginga eða annarra tilsvarandi trygginga. Í þessu tilviki virðist það ekki hafa verið gert og þess vegna hef ég leyft mér, herra forseti, að bera fram fsp. til ráðherra norrænna samstarfsmála annars vegar og hæstv. viðskrh. hins vegar, um tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk í Noregi. Þær hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Samþykktu fulltrúar Íslands í stjórn Norræna fjárfestingarbankans að ekki skyldi krefjast ríkisábyrgðar á láni til Kongsbergs Våpenfabrikk í Noregi sem nú er gjaldþrota?

2. Hve mörg lán hafa verið afgreidd í stjórn bankans án ríkisábyrgðar eða hliðstæðra trygginga og í hvaða tilvikum?

3. Hvers vegna hafa ráðherrarnir ekki séð ástæðu til að skýra Alþingi frá því tjóni sem bankinn hefur nú orðið fyrir við þetta gjaldþrot?"