17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5843 í B-deild Alþingistíðinda. (3942)

291. mál, tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég er hér með útskrift úr því nál. sem sú nefnd skilaði sem fór ofan í reikninga og stöðu verksmiðjunnar, og hafi það verið vafamál áður hvort hér væri um lán til vopnaverksmiðju að ræða eða ekki ríkir um það enginn efi í framtíðinni því að hér segir í útskrift frá nefnd norska Stórþingsins - nú ætla ég ekki að leggja það á hv. þingheim að lesa hana á norsku, en þar stendur í lauslegri þýðingu, og ég er fús til að gefa nál. í ljósriti, að nefndin sé sammála um að það rétta fyrir Kongsbergs Våpenfabrikk í dag sé að einbeita sér að þeirri starfsemi sem heyrir til framleiðslu og sölu á vörum fyrir „forsvarsmarketet“, þ.e. á vörum sem notaðar séu til varnar- og öryggismála, bæði í Noregi og á alþjóðlegum vettvangi. Ég held því að það fari ekki á milli mála að hér er um vopnaverksmiðju að ræða. Svo hefur auðvitað alltaf verið og þess vegna var þetta hlutafélag búið til varðandi bílavarahlutina. Lán hefði auðvitað aldrei fengist ef verksmiðjan hefði ekki reynt að kasta yfir sig þeim huliðshjúp sem hún reyndi að gera. Ég vil þá mælast til þess að hún fái ekki frekari lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum.