17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5845 í B-deild Alþingistíðinda. (3944)

292. mál, stjórn Ísraelsmanna á herteknum svæðum

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur fjallað um mannréttindabrot Ísraelsmanna á herteknu svæðunum og þá atburði sem þar hafa gerst upp á síðkastið og er sammála þeirri yfirlýsingu sem ég gaf í umræðu um skýrslu mína hér á Alþingi 25. febr. sl. þar sem ég fordæmdi þessi verk og raunar hef ég varla nógu hörð orð til að lýsa andúð minni og ríkisstjórnarinnar á því sem þarna fer fram. Ég tel því að afstaða okkar Íslendinga hafi komið fram, en ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að vissulega þarf að undirstrika hana sem best. Ég hef því jafnframt óskað eftir því formlega, og gerði það skömmu eftir umræðuna sem hér var á Alþingi, að málið yrði tekið fyrir á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda sem haldin verður í Tromsö í næstu viku og ég hef fengið staðfest að svo mun verða gert.

Ég tel ákaflega mikilvægt að Norðurlöndin móti sína afstöðu sameiginlega og ég tel mikinn styrk í því að við getum sameinast um harðorða yfirlýsingu í þessu sambandi og að því stefni ég.

Ég tek undir það með hv. þm. að stefna beri að því að ráðstefna um vandamálin á þessu svæði verði haldin hið fyrsta og PLO á að sjálfsögðu að eiga aðild að þeirri ráðstefnu. Hún er raunar til lítils ef svo yrði ekki. Sömuleiðis tel ég sjálfsagt að PLO fái sjálfstæði á herteknu svæðunum. Það kann að þurfa að gerast í einhverjum áföngum, en það á tvímælalaust að vera markmiðið. Ég ætla ekki að fjalla um fyrri afstöðu til þessara mála. Hún hefur komið fram á þingi Sameinuðu þjóðanna með stuðningi okkar Íslendinga við tilverurétt Ísraels. Ég tel að við höfum gengið dyggilega fram í því og það eru að sjálfsögðu þjóðum sem stutt hafa Ísrael sem sjálfstætt ríki á þessu svæði mjög mikil vonbrigði hvernig ástandið er þar nú.

Herra forseti. Um þetta mætti að sjálfsögðu hafa mörg fleiri orð, en ég vona að afstaða ríkisstjórnarinnar komi glöggt fram í því sem ég hef sagt og ég vona að frá fundi utanríkisráðherra Norðurlanda komi sameiginleg hörð afstaða í þessum málum.