17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5847 í B-deild Alþingistíðinda. (3949)

309. mál, sjávarútvegsskóli

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Á þskj. 615 hefur Ragnar Óskarsson, varaþm. Alþb. á Suðurlandi, lagt fram fsp. til hæstv. menntmrh. um það hvort hann hafi í hyggju að setja á stofn sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum.

Fyrir nokkrum mánuðum lauk vinnu starfshóps sem skipaður var af hæstv. menntmrh. og sjútvrh. til þess að gera tillögur um stofnun sjávarútvegsskóla sem starfaði á framhaldsskólastigi. Í ályktun starfshópsins kemur m.a. fram að æskilegt sé að sameina að einhverju leyti þá þrjá skóla sem nú eru starfandi á þessu sviði, þ.e. Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólann og Fiskvinnsluskólann. Taldi starfshópurinn að sameining þessara skóla þýddi sterkari stofnun sem betur gæti tekið á þeim verkefnum sem þessir skólar hafa í dag.

Ef af stofnun sjávarútvegsskóla yrði, skóla sem sæi um þá kennslu sem nú fer fram í þeim skólum sem ég nefndi áðan, væri vart hægt að hugsa sér betri staðsetningu fyrir slíkan skóla en Vestmannaeyjar þar sem nemendur skólans ættu greiðan aðgang að öllum greinum sjávarútvegsins, en í Vestmannaeyjum er langstærsta verstöð landsins. Í dag er starfandi þar stýrimannaskóli og braut fyrir vélskólanám við framhaldsskólann. Formlegur fiskvinnsluskóli er þar ekki en áreiðanlega eru fáir Eyjamenn sem ekki hafa starfað við fiskvinnslu. Það er því ekki nema von að Ragnari Óskarssyni hafi verið þetta mál ofarlega í huga þegar hann tók sæti mitt hér á Alþingi fyrir stuttu, en Ragnar er jafnframt forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum.

Bæjarstjórnin hefur átt viðtöl við hæstv. menntmrh. um stofnun sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum og sent ráðuneytinu ályktanir bæjarstjórnar þar um. Í haust var svo flutt hér á hv. Alþingi þáltill. um sama mál, en hún er enn óafgreidd og bæjarstjórnin hefur engin viðbrögð fengið við sinni málaleitan. Því er þessari spurningu komið hér á framfæri:

„Hefur menntmrh. í hyggju að setja á stofn sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum?"