17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5850 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

320. mál, hreindýr

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það hefur verið upplýst að fallið hafi milli 30 og 40 dýr sem vitað er um. Ég undirstrika það að hér er ekki um villt dýr að ræða. Ef þetta eru villt dýr eru alveg eins lömb, sem fæðast undan kindum sem gengið hafa úti, villt dýr eða afkomendur slíkra kinda. Þessi dýr voru flutt inn til landsins af tömdum stofni og seinast þegar menn voru fengnir til að fylgjast með þeirra hátterni var það niðurstaða lappanna að þau hegðuðu sér í öllu eins og tamin dýr fremur en villt. Þess vegna þýðir ekki að skorast undan þeirri ábyrgð að hér er um hjarðbúskap að ræða, rekinn með dálítið sérstæðum hætti.

Það er sagt að hvergi hafi verið jarðbönn nema í Borgarfirði eystra. Blaðafréttir að austan bera það þó á annan veg. T.d. var tekinn kálfur í Eiðaskógi, svo að dæmi sé nefnt úr blöðum, sem var að falla úr hor og það var engum vandkvæðum bundið að fóðra hann þannig að hann þrifist eðlilega. Það þarf ekkert sérstakt fóður. Það er hægt að gefa þessum dýrum hey. Það vita það allir og það er það sem hefur gerst þegar þau hafa leitað heim á bæi. En að reka búskapinn með þeim hætti sem verið hefur er náttúrlega ráðuneytinu til skammar og beinlínis hlægilegt þegar á sama tíma er verið að fara út í eyjar eins og á Breiðafirði og drepa þar fé og finna það helst út að ærnar séu í þremur reifum. Það er mikill tvískinnungsháttur í þessum vopnaburði og ég sé ekki að menntmrn. geti með nokkru móti varið það ef það tekur ekki á þessu máli. Ég er hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni ef Skagfirðingar væru að horfella stóð með þessum hætti sem hér er og ég man ekki betur en að það yrði allt hálfvitlaust af því að hjá Eggert bónda Haukdal lá dautt hross dálítinn tíma ofan jarðar. Svo virðist hins vegar sem hæstv. menntmrh. telji það sanngjarnt að dreifa hræjunum um Austfirði og hirða lítt um hvort þau eru grafin eða ekki.