17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5851 í B-deild Alþingistíðinda. (3955)

320. mál, hreindýr

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þessi fsp. sem hér er til umræðu ber vott um ótrúlega fáfræði á þeim dýrastofni sem hér er um að ræða, hreindýrunum, (ÓÞÞ: Skordýrafræðingurinn ...) og var svo sem ekki við öðru að búast þegar spyr þm. úr landshluta sem fjærst er þeim slóðum sem hreindýr halda sig á á Íslandi.

Menntmrn. hefur ekki sinnt þessu sérstaka verkefni af neinni prýði á undanförnum árum, það verður ekki sagt, og auðvitað er það furðuleg tímaskekkja eins og með margt annað sem snertir stjórnun umhverfismála í landinu að hreindýr skuli heyra undir menntmrn.

Ég vil aðeins segja um efni þessa máls að það er auðvitað ofur eðlilegt að það falli úr hreindýrastofninum á ári hverju tugir og hundruð dýra og er það aðeins liður í eðlilegri aðlögun náttúrunnar varðandi þennan villta dýrastofn sem hér er um að ræða. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann sér ekki að flytja hér frv. til laga varðandi hreindýramálefni sem er búið að liggja í skúffum menntmrn. um skeið? Og ætlar hann ekki að beita sér fyrir því að ráðinn verði sérfróður aðili til að fylgjast með hreindýrastofninum að vetrarlagi og stunda rannsóknir á honum á þeim árstíma, en þar skortir okkur vitneskju? Það hefur mikið verið rannsakað varðandi sumarhaga og sumarbeit hreindýra.