17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5854 í B-deild Alþingistíðinda. (3962)

352. mál, stofngerðarannsóknir á þorski

Fyrirspyrjandi (Jóhann A. Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv, sjútvrh. um stofngerðarannsóknir á íslenska þorskstofninum. Fyrirspurnin hljóðar svo: „Eru í gangi eða áformaðar stofngerðarannsóknir á íslenska þorskstofninum er gætu gefið til kynna hvort um einhverja staðbundna stofna sé að ræða hér við land?"

Hér er um það að ræða hvort hugsanlegt sé að við landið séu staðbundnir þorskstofnar sem hafi önnur erfðafræðileg og útlitsatriði en heildarstofninn. Dæmi um slíkt finnast m.a. í Kanada og Noregi.

Fyrir norðan land gengur fiskur árvisst á sömu staðina til að hrygna. Almennt hafa fiskifræðingar talið að klak þetta takist misjafnlega og hafi lítið gildi fyrir heildarstofninn. Hins vegar heyrist meðal fiskifræðinga og frá sjómönnum, er lengi hafa veitt á þessum svæðum, að hér sé um að ræða staðbundna fiskistofna sem hafi aðlagað sig náttúrlegum aðstæðum og þá beri að nýta sem slíka eigi að fá af þeim hámarksafrakstur ef jafnframt eigi að tryggja viðgang þeirra byggða sem á þessum stofnum byggja.