17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5854 í B-deild Alþingistíðinda. (3963)

352. mál, stofngerðarannsóknir á þorski

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa víða verið stundaðar rannsóknir sem beinast að því að kanna hvort fiskstofnar kunna að deilast í meira eða minna staðbundnar einingar, þ.e. hrygningarstofna.

Við þessar rannsóknir hefur bæði verið beitt aðferðum sem byggjast á útlitseinkennum svo og erfðafræðilegum aðferðum. Þessar rannsóknir þóttu lofa góðu á sínum tíma, sérstaklega þær sem byggðu á innri erfðaeinkennum. Fyrir alllöngu er ljóst orðið að þær aðferðir sem hingað til hafa verið reyndar skiluðu ekki þeim árangri sem vænst hafði verið og er þeim ekki beitt lengur.

Á Líffræðistofnun Háskóla Íslands er nú verið að kanna nýjar erfðafræðilegar aðferðir sem þykja lofa góðu og hefur Hafrannsóknastofnunin haft milligöngu um öflun þorsksýna frá ýmsum stöðum við landið í þessu skyni. Þessar rannsóknir eru á tilraunastigi og lítið um þær að segja enn sem komið er.

Það er alkunna að þorskur hrygnir víðar við Ísland en á aðalhrygningarsvæðunum við suður- og vesturströndina. Þá hafa merkingar sýnt að eftir hrygninguna heldur þorskurinn í ætisleit út á landgrunnið norðvestan-, norðan- og austanlands hvar sem hann annars hefur hrygnt.

Þau almennu sannindi eru vitanlega í góðu gildi að afla eigi sem mestrar og bestrar vitneskju um lífríki íslenskra fiskimiða. Svokallaðar stofngerðarannsóknir á þorski eru þar engin undantekning. Þær gætu, svo dæmi sé tekið, hugsanlega stuðlað að því að upplýsa betur hvernig háttað er þorskgöngum milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar ef þær á annað borð eiga sér stað í seinna tilviki. Á hinn bóginn verður ekki séð hvernig stjórna mætti veiðum staðbundið hér við landið þó í ljós kæmi að þorskstofninn skiptist í margar einingar sem ættu hver sitt heimkynni sem þær leituðu til til að hrygna. Eina leiðin væri væntanlega sú að takmarka veiðar yfir hrygningartímann sjálfan. Á öðrum árstímum er stofninn meira eða minna blandaður annars staðar á landgrunninu eins og áður segir eða í útköntum þess og eðli málsins samkvæmt veiddur þar upp til hópa án tillits til uppruna síns.

Í ljósi þess sem að ofan greinir mun Hafrannsóknastofnunin halda áfram samvinnu við Líffræðistofnun Háskólans sem kannar nú nýjar erfðafræðilegar aðferðir eins og áður er sagt. Niðurstöður úr þeirri könnun þurfa að liggja fyrir áður en unnt er að ákveða hvort ástæða sé til að Hafrannsóknastofnunin hefji víðtækari stofngerðarannsóknir á þorski eða öðrum fisktegundum.