03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. vil ég segja að athugunum á verkefnum Orkustofnunar erlendis hefur verið haldið áfram. Því miður var árangur svokallaðra samninga ekki meiri en sá að okkur hefur ekki enn tekist að festa þau verkefni í sessi, en ég get sagt við hann að að því er unnið með nákvæmlega sama hætti og var gert í tíð hans sem iðnrh., sem hann reyndar veit ósköp vel, enda getur hann gengið eftir því hjá þeim starfsmönnum sem hann hafði þá í sinni þjónustu.

Nýlega fóru til Kína tveir sérfræðingar Orkustofnunar, þeir Einar Tjörvi Elíasson og Guðmundur Pálmason, og gerðu þar athuganir og ég bíð eftir að fá skýrslu frá þeim um hugsanleg verkefni þar. Enn hefur ekki orðið af frekari framkvæmdum, en vonandi tekst það innan tíðar. Sömuleiðis má minna á verkefni í Kenýa sem menn hafa beðið eftir að fá en enn hefur ekki tekist að afla. Þessi verkefni mundu verða unnin af Orkustofnun erlendis og sjálfstæðum íslenskum fyrirtækjum en snerta í raun og veru ekki beinlínis þau störf sem þeir starfsmenn vinna sem nú hefur verið sagt upp, eins og fyrrv. iðnrh. veit gjörla ef hann hefur kynnt sér málið.

Ég fagna áhuga fyrrv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar á stofnuninni. Það er skiljanlegt. En ég vil aðeins segja þetta að lokum: Þegar verkefni uxu í þessu landi, þegar olían hækkaði, hlutum við að stækka þessa stofnun, leggja áherslu á virkjanir, leggja áherslu á hitaveitur. Þegar saman dregst, verkefnum fækkar, verða menn að hafa kjark til að horfa framan í staðreyndir. Þeir menn sem hafa starfað í einkarekstri, sem hefur gengið illa stundum, orðið að segja upp fólki, geta ekki komið til ríkisvaldsins og beðið um hjálp. Við sem berum ábyrgð á þessari starfsemi verðum því miður að viðurkenna að þegar verkefni dragast saman ber okkur, m.a. skattborgaranna vegna, að draga saman seglin. Ég vonast til þess að það fólk sem nú hættir hjá Orkustofnun fái vinnu við sitt hæfi annars staðar í þjóðfélaginu, enda ber svo vel í veiði nú að um næga atvinnu er að ræða víðast hvar í þjóðfélaginu. Þetta bið ég menn um að hafa í huga. Það er ekki skemmtiverk fyrir ráðherra að þurfa að segja upp fólki. Það er ekki gert vegna þess að það sé mönnum til skemmtunar. Það er gert vegna þess að það er skylda þeirra sem bera ábyrgð á verkefnum eins og þessum að halda þeim í því lágmarki sem kostur er, en bæta frekar við þegar á þarf að halda. Þetta vona ég að hv. þm. skilji.

Ég skil ósköp vel að þessar umræður komi upp í þinginu í dag, en ég bið um að menn geymi sér allar tillögur í þessu efni þangað til fjárlagafrv. verður til umræðu. (SJS: Má þá ekki geyma uppsagnirnar líka?) Nei, það er ekki hægt því að við yrðum þá að segja upp fleira fólki og það er engin ástæða til að geyma þessar uppsagnir. En það kemur út skýrsla næsta vor. Þá skulum við ræða þessi mál frekar. Og við getum enn fremur rætt það þegar fjárlagaumræðan fer fram á morgun eða síðar. En ef Alþingi þóknast að auka við rannsóknir sem þessi stofnun getur framkvæmt, eins og t.d. í Öxarfirði við fiskeldi, svo ég nefni eitt sveitarfélag sem er fyrirspyrjanda kært, verður ráðið fólk til þess. Ég minni á að sumt af þessu fólki er verkefnaráðið, það er bundið við sérstök verkefni, og er eðlilegt að slíkt fólk komi til tímabundinna starfa en sitji ekki ævilangt í þeim stofnunum sem það hefur einu sinni komið inn á. Þetta bið ég menn um að hafa í huga þegar þeir ræða um stofnanir ríkisins.