17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5860 í B-deild Alþingistíðinda. (3970)

335. mál, skólabifreiðar

Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Víða út um land er akstur barna til og frá skóla yfirleitt í höndum íbúa sveitanna. Er það mjög af hinu góða svo framarlega sem lágmarkskröfum varðandi aðbúnað og öryggi er fullnægt. Bifreiðaskoðun fer víða fram seinni hluta vetrar þannig að ýmislegt getur verið úr lagi gengið að hausti þegar skólaakstur hefst, t.d. varðandi hjólbarða og annan öryggisbúnað. Þó svo að þau atriði er varða öryggi farþeganna séu í lagi getur ýmsu verið ábótavant varðandi aðbúnað, t.d, miðstöð léleg og sæti óþægileg. Einnig eru þrengsli oft mikil ef ekki er ætlað sérstakt pláss fyrir farangur. M.a. af þessum ástæðum leyfi ég mér að spyrja hæstv. dómsmrh. hvaða reglur gildi um eftirlit með þeim bifreiðum sem notaðar eru til skólaaksturs. Á ég þá að sjálfsögðu einnig við bifreiðar frá sérleyfishöfum og öðrum þeim sem ekki teljast til íbúa sveitanna.