17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5860 í B-deild Alþingistíðinda. (3971)

335. mál, skólabifreiðar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjendur spyrja hvaða reglur gildi um eftirlit með þeim bifreiðum sem notaðar eru til skólaaksturs. Því er til að svara að þessar bifreiðir sæta venjulegum eftirlitsreglum. Það er ekki sérstakt eftirlit með þeim og ekki með þeim bílum sem flytja skólabörn. Þessir bílar eru ekki skráðir sérstaklega og það hafa ekki verið uppi um það tillögur að skoða þá bíla á annan hátt en almennt er gert.

Í reglugerð um búnað og gerð ökutækja eru ákvæði um fólksflutningabíla sem ætlaðir eru til að flytja fleiri en 16 farþega. Þetta eru hinar almennu reglur sem gilt hafa um skólabíla. En í einstökum tilfellum hefur Bifreiðaeftirlitið veitt undanþágu frá þessum reglum til þess að mæta aðstæðum í strjálbýli og hefur þá verið miðað við sérstakar verklagsreglur um leyfilegan fjölda barna í hverjum bíl og er þá miðað við sætapláss, gerð sætanna, bil milli sæta, upphitun í farþegarými og fleiri atriði sem auðvelt er að afla upplýsinga um hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins. Að þessum skilyrðum uppfylltum, sem m.a. kveða á um hversu mörg börn megi vera í hverjum bekk, af ákveðinni lengd og breidd, hefur verið heimilað' að flytja fleiri börn í bílunum en ef þeir flyttu fullorðið fólk. Þau skilyrði eru þá sett að komið sé með slíka bíla í sérstaka skoðun og undanþágan hefur verið skrifleg og tímabundin. Eftirliti með þessum reglum er síðan haldið uppi af almennu vegaeftirliti sem einkum er í höndum löggæslumanna. En ég fullvissa fyrirspyrjendur um að ég mun huga að því hvernig þessu eftirliti er háttað og hvort ástæða er til að breyta þessum reglum.