17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5861 í B-deild Alþingistíðinda. (3972)

335. mál, skólabifreiðar

Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svar. Það fór eins og mig varði að það væru ekki neinar sérstakar reglugerðir um þetta þó að svo séu einhverjar undantekningar í sambandi við það. Ég eiginlega undrast að það skuli ekki vera sérstakar altækar reglugerðir varðandi búnað ökutækja sem eru notuð til skólaaksturs þar sem segja má að þau séu með sérstaklega dýrmætan farm. En aðstæður bjóða oft upp á að notaðar séu frekar bifreiðar af lakara taginu en til annars konar fólksflutnings og það eru dæmi um slíkt. Ég vonast til þess að hæstv. dómsmrh. beiti sér fyrir því að settar séu sérstakar reglur varðandi skólabifreiðar sem verði framfylgt af bifreiðaeftirlitsmönnum, a.m.k. á hverju hausti.