17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5861 í B-deild Alþingistíðinda. (3973)

342. mál, ný löggjöf um háskóla

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Sem sérstakur stuðningsmaður og aðdáandi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar hef ég kynnt mér stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun hennar gaumgæfilega, enda er það hlutverk Alþingis og alþm. að veita ríkisstjórninni hæfilegt aðhald. Í þessari starfsáætlun stendur m.a., með leyfi forseta:

„Fjárhagslegt sjálfstæði skóla verður aukið. Undirbúin verður ný löggjöf um skólastigin þrjú, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, og þar á meðal um háskóla á Akureyri.“

Nú er það svo að starfsmenn Háskóla Íslands hafa mér vitanlega ekki séð neina sérstaka þörf á breytingum á lögum um Háskóla Íslands. Það er ekki alllangt síðan viðamikil endurskoðun fór fram á lögum um Háskóla Íslands og ég tel að það starf hafi tekist vel. Þó eru ýmsar breytingar sem menn hafa í huga að hrinda í framkvæmd, svo sem að stefna að því að kenna til MS-gráðu í raungreinum. Nám í sjávarútvegsfræðum hefur einnig komið mjög til umræðu í tengslum við Háskólann og hafa tillögu á hinu háa Alþingi verið fluttar þar um og efling rannsókna hefur verið sérstakt áhugamál Háskóla Íslands og starfsmanna hans. Og það ber að viðurkenna að á síðustu fjárlögum var Rannsóknasjóður Háskóla Íslands efldur verulega og er það til bóta.

Það er einnig talað um fjarkennslu og eins og réttilega var nefnt hér áðan er mikill áhugi á fjarkennslu í Háskóla Íslands og með þeim hætti að þjóna allri landsbyggðinni. Þess vegna leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh.:

„Hver er tilgangurinn með endurskoðun laga um háskóla, sem boðuð er í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, og hvernig miðar því verki?"