17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5863 í B-deild Alþingistíðinda. (3975)

342. mál, ný löggjöf um háskóla

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir skýr svör hans um löggjöf um kennslu á háskólastigi, en ég vil leyfa mér að benda á og vara þingið við að ganga of hratt um í þessu máli. Hér er stórmál á ferðinni. Það er tvennt ólíkt, nám á háskólastigi og kennsla á háskólastigi, eða háskóli og kennsla í háskóla, og menn verða að gera sér grein fyrir því hvað hér er á ferðinni.

Ef menn hafa hugsað sér að setja upp eitthvert gagnfræðanám á Akureyri í einstökum greinum er það hið besta mál. Og menn tala um margs konar skóla út um allar jarðir og eru e.t.v. að byrja að reka einhvers konar refabúastefnu í háskólamálum. Ég vil leyfa mér að vara því því að svo verði gert.

Í Morgunblaðinu í morgun er stórfyrirsögn um rannsóknastofnun í sjávarútvegsfræðum. Þar stendur eftirfarandi um háskóla á Akureyri, haft eftir hæstv. menntmrh. „að hann teldi að skólinn ætti eftir að þróast í rannsóknastofnun í nokkrum greinum sem ekki væru rannsakaðar annars staðar í landinu, svo sem sjávarútvegsfræðum“. Það vill svo til að ég var á fundi í morgun með forstjórum rannsóknastofnana atvinnuveganna og þá rak í rogastans við að heyra þetta. Það hefur ekki verið rætt um að Háskóli á Akureyri ætti að þróast í slíka rannsóknastofnun og það er greinilegt að miklu meiri umræða á eftir að fara fram áður en þetta mál verður til lykta leitt. Þetta er stórmál og við skulum vara okkur í afgreiðslu þess.