03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

38. mál, fræðsla um kynferðismál

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Í lok síðasta þings var samþykkt hér á Alþingi svohljóðandi till., með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal Lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15–19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.“

Samþykkt þessarar till. var okkur kvennalistakonum vissulega fagnaðarefni, en við höfum haldið þessu máli vakandi og reynt að ýta á framkvæmdarvaldið með fyrirspurnum og tillöguflutningi allt frá okkar fyrstu dögum á hv. Alþingi.

Þeim til upplýsingar sem e.t.v. hafa ekki kynnt sér þessi mál er hér um það að ræða að fá stjórnvöld til að framkvæma þann kafla laganna frá 1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir sem er í raun og veru undirstaðan undir síðari kafla laganna sem fjallar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Því miður er langt frá því að lögboðinni fræðslu og ráðgjöf hafi verið sinnt þó nú séu liðin meira en tólf ár frá setningu laganna og er það vitanlega með öllu óviðunandi.

Herra forseti. Ég kann því hálfilla þegar verið er að beina máli til hæstv. heilbrmrh. að hann hefur ekki frið fyrir samþingmönnum sínum. (Forseti: Ég vænti þess að hæstv. heilbrmrh. fylgist með því sem hér er sagt. Mér þykir ólíklegt að hæstv. ráðherra geri það ekki.)

Með samþykkt sinni frá sl. vori hefur Alþingi staðfest þann vilja sinn að við þessi lög verði staðið. Þar sem ekkert hefur frést af framkvæmd þessarar till. og ekki síður vegna þess að ekki verður séð að til þess sé ætlað fé í frv. til næstu fjárlaga hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um framkvæmd málsins og beini þeirri fsp. til hæstv. heilbrmrh. á þskj. 38: „Hvað líður framkvæmd þál. sem samþykkt var á Alþingi 19. mars sl. um fræðslu meðal almennings um kynferðismál?"