17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5867 í B-deild Alþingistíðinda. (3983)

343. mál, vísindastefna

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans góðu svör við þessari spurningu og þann mikla áhuga sem hann, ráðuneyti hans og ríkisstjórn sýna á rannsóknarmálum. Ég vil líka fagna því að hann skuli vilja beita sér fyrir frekari athugun á markmiðum þeim sem felast í spurningunni: hvenær við megum vænta þess að ná svipuðu hlutfalli í framlögum til rannsókna og þróunar sem hlutfall af þjóðartekjum og í nágrannalöndunum.

Margt hefur gerst sem til bóta er á undanförnum árum og í tíð núverandi ríkisstjórnar og menntmrh., einkum í sambandi við framlög til Rannsóknasjóðs Háskólans, sem hann hér nefndi, og ber að fagna því og ég veit að Háskóli Íslands fagnar því mjög. Hins vegar stefnum við ekki nógu markvisst að því að ná þessum ofangreindu markmiðum. Ég hef sett fram þá skoðun að við ættum að setja okkur eitthvert markmið eins og 11/2% af þjóðartekjum á einhverju árabili, til t.d. 1995. Hér er ég með tiltölulega nýlega töflu, línurit sem sýnir framlög okkar og nálægra þjóða til rannsóknarmála, og línan neðst lýsir Íslandi. Í morgun dró framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins þessa línu áfram og hún beygir því miður niður á við. Þetta þurfum við að athuga gaumgæfilega. En ég fagna áformum menntmrh.