17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5871 í B-deild Alþingistíðinda. (3988)

345. mál, Fulbright-stofnunin

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í máli mínu núna beina sjónum Alþingis að Fulbright-stofnuninni, Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna sem starfað hefur hér á Íslandi í u.þ.b. þrjátíu ár að ég hygg.

Þessi stofnun hefur stuðlað að skiptum vísindamanna og stuðlað að því að styrkja nemendur til framhaldsnáms í bandarískum háskólum. Á næsta skólaári hygg ég að stofnunin ætli að styrkja níu eða tíu nemendur frá Íslandi til háskólanáms í Bandaríkjunum með, ef ég man rétt, um 100 þús. kr. framlagi til hvers nemanda, en þetta framlag er tvöfaldað til þrefaldað að verðmæti í Bandaríkjunum vegna þess að þar koma framlög þeirra skóla sem nemendurnir stunda nám við. Nú er svo komið fyrir þessari stofnun að starfsemi hennar er í hættu vegna þess að framlag okkar er fremur lítið, þó að það hafi að vísu hækkað, ég hygg að það sé á f árlögum fyrir þetta fjárlagaár um 200 þús. ísl. kr. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé 5% eða þar um bil á móti framlagi Bandaríkjamanna. Margar svipaðar stofnanir starfa í nágrannalöndunum í Vestur-Evrópu og þar hygg ég að framlag þeirra ríkja á móti framlagi Bandaríkjanna til þessarar starfsemi sé miklu meira, í sumum tilfellum helmingur eða jafnvel meira.

Ég óttast það að þessi starfsemi sé í hættu, það eru ýmsar vísbendingar um það, og þess vegna ber ég fram þessa spurningu til hæstv. menntmrh.:

Hver eru hlutfallsleg framlög Íslendinga og Bandaríkjamanna til Menntastofnunar Íslands og Bandaríkjanna, Fulbright-stofnunarinnar, og hvernig er hlutfallslegt framlag Íslendinga borið saman við framlög annarra landa til sams konar samstarfs, þ.e. Fulbright-stofnana þeirra landa?