17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5874 í B-deild Alþingistíðinda. (3993)

346. mál, endurskoðun kosningalaga

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans góðu og greiðu svör við þessari spurningu. Ég vil minna á það líka að frá lýðveldisstofnun hafa stjórnarskrárbreytingar nær eingöngu fjallað um breytingar á kjördæmaskipan og ég tel að þessi reynsla okkar hafi kennt okkur að atriði eins og kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipan séu betur komin í almennum lögum en stjórnarskránni nema aðeins í aðalatriðum, m.a. þá þessum jafnræðisatriðum sem ég nefndi, svo við neyðumst ekki til þess á tiltölulega fárra ára fresti að endurskoða og breyta stjórnarskránni.