17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5883 í B-deild Alþingistíðinda. (4007)

358. mál, hálendisvegir

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég byrja á að fagna þessari till. því að það er tími til kominn að ræða vegagerð á hálendinu hér þó mér sýnist á tillögugerð að menn geri sér ekki ljóst hvað hún er komin langt. Ég verð að lýsa undrun minni á sumum þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar vegna þess að ég held að þm. hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað er búið að byggja mikið vegakerfi á hálendinu. Hér er t.d. ekki minnst á að það er búið að leggja mikinn veg langleiðina upp á Kjöl norðan megin frá Blöndu og það er raunverulega ekki löng leið frá Gullfossi upp Kjalveg yfir Bláfellsháls og norður að hinum nýja vegi. Þannig hafa verið gerð mikil vegamannvirki uppi á hálendinu og miklu betri en sjást víðast hvar í byggð. Á Sprengisandi allt upp að Nýjadal hafa verið byggðir miklu betri vegir en eru í öllum byggðum þessa lands. Þar hafa verið gerð vegamannvirki sem jaðra við landspjöll því að það hafa verið lagðir vegir upp að Eyvindarveri og fleiri stöðum sem deila má um hvort valdi ekki verulegum landspjöllum. Þetta hefur allt verið gert án nokkurs samráðs við Alþingi. Landsvirkjun hefur lagt þessa vegi og hvorki spurt kóng né prest um lagningu þeirra hér á Alþingi. Ég held að það sé einmitt tímabært að menn ræði þessa vegagerð.

Það er svo að þegar maður keyrir um hálendið undrast maður þessa miklu vegi þegar litið er svo til byggðs bóls víðast þar sem vegirnir eru mjög takmarkaðir. Ég tel að menn verði að líta á þessa vegi og væri full ástæða til að alþm. kynntu sér betur þá vegagerð sem Landsvirkjun hefur staðið fyrir sem er alveg stórkostleg því að hún er miklu betri en hringvegurinn víða. Ég hef undrast þessa vegagerð löngum. Það hafa vaxið tröllauknir vegir á hálendinu sem enginn veit af og hefur aldrei verið hreyft neinu orði um það á Alþingi að þessir vegir hafi verið lagðir. Ég bendi á að þessir vegir eru langleiðina að tengja Suður- og Norðurland. Ég minntist á Kjalveg, sem á ekki langt í að það sé hægt að tengja hann niður að Gullfossi, og eins er Sprengisandsleiðin. Það er ekki langt í land að þessir vegir verði tengdir við Norðurland, bæði í Skagafjörð og Eyjafjörð, án þess að Alþingi fjalli nokkuð um það. Það mun ekki koma til umræðu á Alþingi, geri ég ráð fyrir, hvort þessir vegir verða lagðir eða ekki því að þeir eru komnir langleiðina og Landsvirkjun ætlar greinilega að halda vegagerð þessari áfram. Væri fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. iðnrh. um þessa vegagerð sem væri full ástæða til að ræða hér frekar.

En við getum tekið undir það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði áðan um að það væri mikið af vegum í byggð sem lægi á að klára. Ég bendi á t.d. að það þarf að tengja hringveginn þannig að lagningu hans með bundnu slitlagi ljúki. Það er mjög mikilvægt mál fyrir byggðir landsins þó að sé ekki nema það og einnig tenging í helstu þéttbýlisstaðina.

En ég held að vegagerð á hálendinu muni verða kláruð án þess að við verðum spurðir að því á Alþingi því að Landsvirkjun er langleiðina komin með að leggja suma af þessum vegum. Ef menn vita það ekki er eins gott að þeir kynni sér það núna því að það eru tröllauknir og glæsilegir vegir uppi á miðhálendi sem ég hef ekki séð annars staðar á landinu meiri eða betri.