17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5884 í B-deild Alþingistíðinda. (4008)

358. mál, hálendisvegir

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. rétt áðan tel ég rétt að taka fram, og það hefur reyndar komið fram í máli hans eins og margra annarra, að hér er aðeins verið að ræða hugmynd um að kanna mál. Ég lít svo á að orð og hugmyndir verði til alls fyrst. Ég veit ekki betur en við séum að leggja hér eitt og annað til sem ekki gerist alveg á þessari stundu. Ég vil í því sambandi t.d. minna á till. til þál., sem flutt var fyrr á þessu þingi, um lagningu jarðganga á ýmsum stöðum á landinu. Auðvitað er það eitt af þeim málum sem ekki verða framkvæmd á allra næstu árum. En ég lít á það sem eitt af meginhlutverkum okkar að sjá fram í tímann, lita lengra fram á við og kanna hvaða möguleika við höfum. Og þó svo holurnar á vegum Vesturlands og víða annars staðar séu margar hverjar æðidjúpar verðum við að reyna að sjá upp úr þeim. Ég lít ekki svo á að með till. þessari sé verið að leggja til að dregið verði úr fjárveitingum til þeirra áætlana um vegalagnir sem þegar hafa verið gerðar. Hér er aðeins verið að leggja til að nýir möguleikar verði kannaðir án nokkurra skuldbindinga um framhaldið.