17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5891 í B-deild Alþingistíðinda. (4014)

358. mál, hálendisvegir

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Mér virðist sem þessi till. sé tiltölulega saklaus, að menn hefji söfnun upplýsinga um vegalagningu á hálendinu og svo hvaða áhrif tenging með nýjum hætti hefði á byggðarlögin. En í mínum huga leikur enginn vafi á hver röðun verkefnanna hlýtur að vera. Það er auðvitað að leggja áherslu á hringveginn, þar með talinn hringvegur um Vestfirði, og síðan tenginguna, uppbyggingu veganna innan héraðanna, óhemjulegt verkefni sem bíður okkar. Okkur hefur að vísu skilað vel fram á veg í þessum sökum undanfarið en verkefnin sem bíða eru eins og ég segi ótrúlega mikil að vöxtum og kostnaðarsöm, og ef einhver ástæða er til að ætla eða menn leggja þann skilning í þessa till. að það sé verið að raða þessu verkefni í einhvers konar forgangsröð eru engin önnur ráð en að fella hana.