17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5896 í B-deild Alþingistíðinda. (4017)

354. mál, jöfn skólaskylda

Ragnhildur Helgadóttir:

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess sérstaklega að fagna framkomu till. Ég tel það mjög mikils virði að kona sem hefur annast kennslu einmitt utan hins mesta þéttbýlis flytji till. sem þessa. Það er alveg ljóst að nútíminn kallar á það að jafnrétti í menntunarmálum sé sérstaklega sinnt og það jafnrétti á ekki einungis við um framhaldsskóla á ýmsu stigi eða háskóla, heldur fyrst og fremst varðar þetta atriði, grunnskólastigið og grunnfræðsluna, fræðsluna í grundvallargreinunum sem allt hitt byggist á. Við þekkjum það mörg sem sitjum á Alþingi að okkur þykir stundum sem tími yngstu barnanna sé e.t.v. ekki nægilega vel nýttur og síðan fáum við fregnir af því að þegar börnin koma í framhaldsskóla þykja þau ekki nægilega vel að sér í grundvallargreinum. Þetta er því miður staðreynd og nægir að vitna til nýlegra athugana á þekkingu nemenda í grundvallarfögum eins og íslensku og stærðfræði. Ég hygg að það sé algjörlega ljóst að einmitt skólatíminn sé nýttur eins og grunnskólalög segja til um, þar sem gert er ráð fyrir að grunnskólinn sé 7–9 mánaða skóli, þessi möguleiki sé nýttur til hins ýtrasta. Það var hér áður á tíð að kennarastarfið var ekki talið heils árs starf og ekki launað sem slíkt. En einmitt það atriði rennir stoðum undir till. sem hér er flutt og sú gerð að breyta launafyrirkomulagi á þennan veg byggist á nákvæmlega sömu röksemdinni og liggur til grundvallar fyrir till.

Börnin úti um landið hafa ekkert síður þörf fyrir fræðslu og skólavist en börnin í þéttbýli og þess vegna tel ég það mjög af hinu góða að á Alþingi kemur fram tillaga sem ég vona að fái almennt fylgi um að breyta starfseminni í þetta horf þar sem það hefur ekki nú þegar gerst. Ég er ansi hrædd um að það séu leifar af fortíðaratvinnufyrirkomulagi á Íslandi að menn telja það sjálfsagt að börn víða úti um land fái mun skemmri skólatíma á ári hverju en önnur börn. Þessu þurfum við að breyta og ég vona svo sannarlega að allur sá kvennahópur sem hér er á Alþingi nú hafi áhrif í þá átt að þessu verði breytt.