17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5896 í B-deild Alþingistíðinda. (4018)

354. mál, jöfn skólaskylda

Flm. (Arndís Jónsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. sem hafa stutt mál mitt hér innilega. Ég get vel tekið undir það að skólatíminn þarf að vera betur nýttur en hefur verið fram að þessu. Hins vegar tek ég ekki undir það að við förum e.t.v. að stuðla að vinnuþrælkun barna og unglinga. Það er aftur annar hlutur sem er í ákaflega fáum tilfellum nú til dags, og um það er ég fullviss og get einnig fullvissað aðra um, að börn og unglingar eru beðin um að vinna önnur störf þegar úr skólanum er komið. Þar á ég við hinn hefðbundna búskap.

Í sambandi við það sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir ræddi um hér áðan er afskaplega gott að heyra og einnig hitt að fá þennan góða skilning og stuðning við þetta mái. Ég vil í sambandi við sex ára börnin náttúrlega fagna því að skólatími þeirra verði lengdur og það vonandi sem fyrst.

Svona til fróðleiks um Suðurlandsumdæmi þá eru þar 34 grunnskólar og ég vil að það komi fram að þar eru aðeins tveir grunnskólar níu mánaða skólar. Það er allt of lág tala. Flestir starfa átta og hálfan mánuð og svo hinir átta mánuði. Þetta er léleg útkoma að mínu mati.

Ég held að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég vona að þessi þáltill. fái góða umfjöllun og frekari afgreiðslu í nefnd og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til félmn.