17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5897 í B-deild Alþingistíðinda. (4020)

364. mál, starfsskilyrði atvinnugreina og byggðaþróun

Flm. (Jóhann A. Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um starfsskilyrði atvinnugreina og byggðaþróun. Till. þessi er á þskj. 696. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Björn Gíslason, Málmfríður Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd sjö manna er kanni mismunandi starfsskilyrði atvinnugreina og þróunarforsendur byggða með sérstöku tilliti til stjórnarstefnunnar í gengis- og peningamálum.

Nefndin skal skila niðurstöðum sínum í skýrslu til Alþingis svo fljótt sem auðið er og geri í henni tillögur til úrbóta.“

Tilefni þessarar þáltill. er sú staða sem útflutningsgreinar landsmanna hafa staðið frammi fyrir vegna fastgengisstefnu ríkisstjórnarinnar án þess að innlendu verðlagi sé jafnframt stýrt. Tekjur útflutningsgreinanna hækkuðu um 4% árið 1987 á föstu verðlagi. En á sama tíma hækkuðu vextir hér á landi yfir 100%. Ég er ekki viss um það að allir sem tóku ákvörðun um þær vaxtahækkanir hafi gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra úti í þjóðfélaginu hvort sem við tölum um einstaklinga eða atvinnufyrirtæki. Nú er mér sagt að viðskiptabankarnir skili um 700 millj. kr. í rekstrarafgang. Einhverjir borguðu þá peninga.

Af tekjum fiskvinnslunnar námu vextir árið 1987 7%. En til samanburðar þá námu vextir af fiskvinnslu í Brettandi, sem við keppum við og verðum að vera samkeppnisfærir við vegna útflutnings á fiski, 1,3% af tekjum. Útflutningsframleiðsla landsmanna er talin hafa aukist um 5% að magni árið 1987, en 4% á föstu verðlagi. Á sama tíma jókst innflutningur landsmanna um 20,5% á föstu verðlagi til samanburðar um 5,5% árið 1986.

Á þessu ári stefnir í 10–15 milljarða óhagstæðan viðskiptajöfnuð eftir því hvaðan upplýsingarnar koma. Þetta þýðir að við eyðum 10–15 milljörðum meira en við öflum með okkar útflutningstekjum. Þannig getur þjóðfélagið ekki gengið. A.m.k. dettur engum í hug að reka heimili upp á þennan máta til lengdar. Það er aðeins verið að velta vandanum yfir á þá kynslóð sem taka skal við. Í dagblaðinu Degi 10. mars sl. er viðtal við efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, Ólaf Ísleifsson, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin hefur í tvígang ráðist gegn viðskiptahallanum. Vilji menn ganga enn lengra en gert hefur verið þá eru þeir kostir helstir að hækka beina skatta, aðgerðir til að knýja vexti frekar upp og gengisfelling.“

Þetta eru ráðin til að draga úr viðskiptahallanum. Því miður þá skil ég þetta svo að stjórnvöld hafi gefist upp og sætt sig við eyðslu upp á 10–15 milljarða umfram það sem aflast í gjaldeyristekjur.

Mér er spurn: Hvers vegna á ekki að beita hér framboðs- og eftirspurnarverðmyndun líkt og gert er á fjármagnsmarkaðnum? Hvað verður um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar ef svo heldur fram sem horfir? Þessi stefna, að stýra tekjugrundvelli útflutningsgreinanna en hafa frjálsræði á sem flestum sviðum í verðmyndun innan lands, leiðir ekki til neins annars en skipbrots útflutningsatvinnugreinanna með ákveðnu millibili og skapar óstöðugleika í efnahagslífinu. Er það ekki í rauninni ótrúlegt hvernig sjónarmið útflutningsgreinanna verða algerlega undir við stjórnun í gengis- og peningamálum þegar haft er í huga mikilvægi þeirra fyrir rekstur og viðgang þess velferðarþjóðfélags sem skapast hefur í landinu?

Launamunur í landinu hefur sennilega aldrei verið meiri en nú og stafar það ekki síst af mismunandi tekjuforsendum atvinnugreinanna. Í umræðum hér á Alþingi síðustu dagana hefur mikið verið rætt um að lögbinda lágmarkslaun. Að mínu mati leysir það ekki þann vanda sem við er að etja. Í dag er launamunur mikill á milli landshluta, fyrst og fremst eftir því hvaða atvinnustarfsemi fer þar fram. Það þarf nefnilega að breyta þessu kerfi sem við búum við. Sú óréttláta skömmtunarstefna gagnvart launafólki sem felst í síðustu efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar gengur ekki öllu lengur. Misréttið eykst hvarvetna í þjóðfélaginu og nú endurspeglast óánægja fólks m.a. í þeirri útreið sem nýgerðir kjarasamningar Verkamannasambandsins og vinnuveitenda fengu, ekki síst á landsbyggðinni. Vart er fyrr búið að skammta en búið er að taka kjarabæturnar aftur af þeim aðilum sem sjálfdæmi hafa um verðmyndun og eru ekki háðir skömmtunarkerfi stjórnvalda.

Nú virðist stefna í sama farið aftur, þ.e. að innan skamms þurfi að koma til nýjar efnahagsaðgerðir. Launabilið heldur þá áfram að aukast og enn þrengir að útflutningsatvinnuvegunum. Þetta gerist þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun núverandi ríkisstjórnar um að bæta kjör hinna lægst launuðu og stuðla að betra jafnvægi í þróun byggða. Nefnd sú er tillagan gerir ráð fyrir að skipuð verði þarf að leita svara við þeirri spurningu hvernig megi tryggja með varanlegum hætti afkomu útflutningsgreinanna og þeirra sem þar starfa þannig að ekki sé þörf á síendurteknum efnahagsaðgerðum til að tryggja framhald þessarar atvinnustarfsemi.

Aðeins virðast tvær leiðir koma til greina út úr þeirri stöðu sem útflutningsstarfsemin býr nú við. Hin fyrri er að samfara fastgengisstefnu sé einnig stýrt öðrum helstu kostnaðarþáttum í rekstri útflutningsfyrirtækjanna. En hin síðari að láta frelsið ná alla leið og þar með einnig að láta framboð og eftirspurn ráða verði á þeim gjaldeyri sem útflutningsgreinarnar skapa.

Stöðu frjálshyggjunnar í þjóðfélaginu nú má líkja við mann í sjálfheldu sem ekki gerði sér grein fyrir að legði hann af stað yrði hann að komast alla leið. Honum er óljúft að snúa til baka, hins vegar getur hann ekki verið endalaust í þessari sjálfheldu og þarf því að taka ákvörðun ef hann á annað borð á nokkurn kost annan en að fá hjálp.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa mál mitt öllu lengra þar sem þeim er til þekkja á vandinn að vera ljós og þeim þm. er á hlýða fer ört fækkandi. Ég legg áherslu á að brýnt er að nefndin vinni störf sín fljótt og vel og að fram komi hnitmiðuð og glögg skýrsla um nýskipan þessara mála.

Hæstv. forseti. Ég legg til að till. verði vísað til hv. atvmn. að loknum þessum hluta umræðunnar.