17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5899 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

374. mál, valfrelsi til verðtryggingar

Flm. (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um valfrelsi til verðtryggingar í tilefni af þeirri miklu umræðu um lánskjaravísitölu og verðtryggingu sem hér hefur farið fram á hinu háa Alþingi.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina:

1. að láta þegar fara fram endurskoðun á VII. kafla laga nr. 13 frá 10. apríl 1979, sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, með það fyrir augum að koma á hliðstæðu valfrelsi um viðmiðun verðtryggingarinnar og þegar gildir um ákvörðun vaxta, svo og að nema úr gildi úrelt ákvæði en sameina önnur vaxtalögunum þyki það henta;

2. að endurskoða með hliðstæðum hætti þau lagaákvæði sem enn gilda um vexti fjárfestingarlánasjóða skv. 11. gr. laga nr. 13 frá 23. maí 1975 til samræmis við lagaákvæði um vexti viðskiptabanka og sparisjóða.“

Um þetta vil ég segja að verðtrygging, sem tekur fullt tillit til verðbólgu, veldur endurmati peningalegs fjármagns í sparifé og útlánum og tryggir varðveislu raunvirðis þess þrátt fyrir verðbólguþróun. Afborganir koma þannig inn aftur með réttu raunvirði og gera kleift að skila sparifé með sama hætti. Áhrif þessa endurmats til raunverulegrar ábyrgðar lántakenda og skilvirkni lánakerfisins eru fræðilega óyggjandi, enda jafngilda þau skilyrðum stöðugs verðlags.

Segja má að með verðtryggingu hér á landi hafi tekist að forða peningakerfinu frá algjöru hruni. Peningalegur sparnaður, sem dróst verulega saman á áttunda áratugnum, er nú vaxandi á ný. — Þetta sýni ég hér í töflu, sem fylgir á bls. 3 í þessu þskj., þar sem glöggt má sjá hvernig heildarinnlán féllu sem hlutfall af landsframleiðslu úr u.þ.b. 35–40% á sjöunda áratugnum niður í tæp 20%, eða 19,13% árið 1978. Síðan verðtrygging var upp tekin samkvæmt þessum lögum, sem nefnast „Ólafslög“, hefur heildarinnlánamyndun orðið nærri því 30% eða 29,99% eins og hér sýnir. — Hlutfall erlendra lána af lánanotkun hagkerfisins í heild er lækkandi. Geta innlendra lánastofnana til að veita lán hefur aukist. Telja verður ótímabært að fella úr gildi heimildir til verðtryggingar á meðan ekki hefur tekist að draga meira úr verðbólgu. Hins vegar er æskilegt að taka verðtryggingarkafla „Ólafslaga“ (nr. 13/1979) til endurskoðunar, bæði vegna þess að staðsetning ákvæðanna í lagabálki um ýmis fjarskyld mál, sem að ýmsu leyti eru fallin úr gildi, er óæskileg, og einnig vegna hins að bjóðandi tónn eða orðun laganna á ekki lengur við heldur er verðtrygging orðin valfrjáls kostur í samhengi hins almenna vaxtafrelsis. Verðtrygging væri þá heimil þar sem ekkert bannaði hana. Væntanlega þætti þó öruggara að viðhalda fáum, einföldum meginreglum. Mættu þau lagaákvæði þá helst bætast við vaxtalögin. Verðtrygging miðast nú í flestum tilfellum við lánskjaravísitölu eða gengi erlendra gjaldmiðla. Getur það hentað vel í lánsviðskiptum fyrirtækja en afkoma þeirra tekur einkum mið af almennu verðlagi. Hins vegar er líklegt að önnur vísitala, með meira vægi á almenn launakjör heldur en lánskjaravísitalan í dag, hentaði betur í lánsviðskiptum einstaklinga. Kanna bæri í þeirri endurskoðun sem boðuð er í þessari þáltill. hvernig slíkum vísitölum bæri saman til lengri og skemmri tíma.

Er það aðalatriði þeirrar till. sem hér er fram borin að slíkt mat og slík endurskoðun færi fram. Höfum við nú 8–9 ára reynslu af þessu kerfi og gætum notað þær vísitölur sem til eru og þá reynslu sem þegar er fyrir hendi til að meta mismunandi kerfi, þar með kerfi með meira vægi á launakjör.

Um lánskjör fjárfestingarlánasjóða gildir 11. gr. laga nr. 13 frá 23. maí 1975, um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga, verðlagsmál o.fl. Er 11. gr. hið eina sem í gildi stendur af þessum lögum, en heiti þeirra felur ekki í sér neina tilvísun til ákvörðunarlánskjara.

Upphaflegt tilefni lagasetningar þessarar var einkum það að almennri verðtryggingu fjármagns hafði enn ekki verið komið á enda þótt mikið af aðfengnu fé sjóðanna væri verðtryggt eða gengistryggt. Eigið fé sjóðanna rýrnaði því stórum og allt að gjaldþrotamörkum. Sýndu stjórnir sumra þeirra lítinn vilja til þess að bæta úr því ástandi svo að nauðsyn þótti til bera að hið almenna stjórnvald hlutaðist til um málin.

Viðhorfin eru nú gjörbreytt í flestu tilliti. Almennt vaxtafrelsi ríkir á lánamarkaðnum og hafa nánustu samkeppnisaðilar fjárfestingarlánasjóðanna fullt færi á sveigjanlegri aðlögun að markaðsaðstæðum.

Af þessum breyttu viðhorfum hlýtur að verða dregin sú ályktun að það sé óhjákvæmilegt skilyrði viðgangs og vaxtar fjárfestingarlánasjóðanna að þeir njóti jafnræðis við aðra aðila á fjármagnsmarkaði með sveigjanlega aðlögun útlánsvaxta sinna að markaðsskilyrðum.

Stefna þessi styðst jafnframt við þá yfirlýstu meginstefnu ríkisstjórnarinnar að hinar einstöku einingar, jafnt í opinbera geiranum sem einkageiranum, starfi á eigin ábyrgð í sem ríkustum mæli.

Æskilegast er að sjálfsögðu að ákvæði nýrra laga taki við af þeim sem felld yrðu úr gildi. Verði hins vegar einhver verulegur dráttur þar á má spyrja hvort nokkur skaði sé skeður þótt lagaákvæðin frá 1975 um lánskjör sjóðanna séu felld úr gildi. Mundi þá væntanlega leiða af sjálfu sér að sjóðstjórnir réðu lánskjörum til lykta.

Ég vil þó ítreka það að tilgangur þessarar till. er fyrst og fremst að fá fram þetta endurmat og þessa könnun á lánskjaravísitölunni eins og hún er í dag og verður, hún er nákvæmlega skilgreind, og í langtímasamningum, miðað við ýmsar aðrar hugsanlegar vísitölur með það fyrir augum að geta boðið upp á annars konar verðtryggingu þar sem misvægi það sem kom fram árið 1983 mundi ekki leggjast jafnþungt á lántakendur, einkum einstaklinga í húsbyggingum, eins og þá varð.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til allshn.