21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5912 í B-deild Alþingistíðinda. (4035)

355. mál, haf- og fiskirannsóknir

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um haf- og fiskirannsóknir sem við nokkrir þm. höfum staðið að að flytja. Segja má að það sé ekki nokkur vafi á að rannsóknir á hafsvæðum og fiskirannsóknir eru eitt af mikilvægustu verkefnum sem við þurfum að sinna og í umræðum um lög um stjórn fiskveiða kom æ oftar upp að í mörgum tilfellum voru e.t.v. ekki nægilegar upplýsingar fyrir hendi þar sem þær rannsóknir sem hefðu þurft að gerast höfðu ekki verið gerðar.

Ég held að þessi þáltill., sem fjallar um að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlanir um auknar fjárveitingar á næstu fimm árum, hljóti að fá jákvæðar undirtektir. Við gerum okkur grein fyrir að sjávarútvegur er langmikilvægasta atvinnugreinin hér og þess vegna mikilvægt að það sé sinnt þörfum á rannsóknum á þessari mikilvægu atvinnugrein.

Við höfum marga og góða vísindamenn og við áttum þess kost, alþm., að vera á fundi þar sem þeir ágætu menn frá Hafrannsóknastofnun skýrðu frá starfi stofnunarinnar, sem var mjög fróðlegt. Ég held að það liggi fyrir að það verði að leggja áherslu á auknar rannsóknir á þessu sviði og minni á að við fluttum fyrr í vetur þáltill., ég og hv. 7. þm. Reykn., um klak sjávarfiska sem er einn af þeim þáttum sem þyrfti að rannsaka og athuga betur. Þá er ekki vanþörf á að athuga ýmsa þætti, svo sem strauma hér, nánar og tengingu á milli lífríkisins í því sambandi. Sérstaklega tel ég að við þurfum að athuga mengun sjávar, hvernig hún t.d. berst með straumnum, og þá ekki síður að hér hafa verið settar á stofn mjög stórar ferskvatnseldisstöðvar sem þýða geysilega mikla mengun sjávar. Mengunin frá þessum stöðvum berst til sjávar á þeim svæðum þar sem eru miklar klakstöðvar þorskstofns og fleiri fiska. Það er mjög nauðsynlegt að rannsaka hvort þetta getur haft áhrif á klak í framtíðinni. Ýmsa slíka þætti er mjög nauðsynlegt að skoða, en það er því miður svo að þessu hefur ekki verið sinnt nægilega og er því þessi þáltill. lögð fram. Ég held að einmitt í okkar umræðu, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. varðandi hvali, seli og fiska, sé mjög mikilvægt að rannsaka hvaða áhrif þeir hafi á lífríkið og á fiskistofnana.

Þá heyrðum við, þegar við vorum á fundinum í Hafrannsóknastofnun, einmitt um jafnvægið á milli loðnustofnsins og þorskstofnsins, sem er ein aðaluppistaðan í ætinu, og er mjög mikilvægt að við vitum hvað við eigum að gera á þessum sviðum þannig að við ofveiðum ekki einn stofninn og það komi niður á öðrum stofni þannig að hann hafi ekki nægilegt fæði.

Ýmsar rannsóknir þurfum við greinilega að gera og ég held að þessi till. hljóti að verða skoðuð mjög vandlega og menn verði að átta sig á því að þessi mikilvægasta atvinnugrein okkar verður að fá nægilegt fjármagn til þess að þær rannsóknir fari fram sem geta þó sagt okkur hvernig við eigum að stýra fiskveiðunum í framtíðinni, hjálpað okkur til þess.

En eins og ég sagði hér áður þá vantaði verulega á það í þær umræður sem hér fóru fram um frv. til laga um stjórn fiskveiða að fyrir lægju nægilegar upplýsingar á ýmsum sviðum. Ég tel að við getum ekki stjórnað okkar fiskveiðum með góðu móti nema við höfum fyrirliggjandi ýmsar rannsóknir og niðurstöður í því. Ég bendi t.d. á að það er mjög mikið álitamál hvað togarar gera við botngróður og lífríki botnsins og það er spurning hvort það muni hafa einhverjar afleiðingar til framtíðar, hvort það þarf að friða einhver svæði sérstaklega í því tilliti, og þannig mætti lengi telja.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega, en vonast til að þetta mál fái framgang og menn leggist á eitt um það að gera rannsóknir á þessu sviði miklar í framtíðinni.