21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5913 í B-deild Alþingistíðinda. (4036)

355. mál, haf- og fiskirannsóknir

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þá till. til þál. sem hér hefur verið borin fram, en eins og kom fram í grg. hv. 1. flm., Hjörleifs Guttormssonar, hefur raungildi fjárframlaga til Hafrannsóknastofnunar ekki aukist sl. tíu ár þrátt fyrir auknar skyldur stofnunarinnar um þjónustu og rannsóknir.

Haf- og fiskirannsóknir gegna mikilvægu hlutverki í þjóðarbúskap okkar og er Hafrannsóknastofnun ætlað að gefa ráðleggingar sem leiða til hámarksafraksturs auðlinda hafsins í framtíðinni.

Í till. þeirri sem hér um ræðir er gert ráð fyrir að gera Hafrannsóknastofnun kleift að sinna betur því hlutverki sem henni er ætlað. Ég tel það jákvætt og nauðsynlegt skref að stórauka umhverfisrannsóknir og tvinna þær saman við fiskirannsóknirnar því það er vitað að ástand nytjastofna á miðunum í kringum landið ræðst að miklu leyti af þeim umhverfisaðstæðum sem ríkja á hverjum tíma. Því meira sem við vitum um tengsl þessara þátta þeim mun betur og skynsamlegar getum við nýtt þessa dýrmætustu auðlind okkar.

Nú eru bundnar miklar vonir við eldi sjávardýra. En ein meginforsenda þess að vel til takist eru einmitt auknar rannsóknir á þeim líffræðilegu og umhverfisbundnu þáttum sem áhrif kunna að hafa.