21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5926 í B-deild Alþingistíðinda. (4048)

361. mál, Menningarsjóður félagsheimila

Flm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu Menningarsjóðs félagsheimila sem ég flyt ásamt hv. 10. þm. Reykv. Guðmundi G. Þórarinssyni. Tillgr. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að efla beri Menningarsjóð félagsheimila og felur menntmrh. að láta fara fram endurskoðun á lagaákvæðum um sjóðinn. Endurskoðunin skal fela það í sér að sjóðurinn geti stuðlað að auknu menningarstarfi á landsbyggðinni og auðveldað þeim menningarstofnunum sem eiga að þjóna landinu öllu að gegna því hlutverki sínu. Miðað skal við að ný löggjöf um sjóðinn taki gildi 1. jan. 1989.“

Ég mun gera stutta grein fyrir því af hvaða hvötum þessi tillaga er flutt, en nokkur atriði um það efni koma fram í grg. með till. þar sem segir m. a.:

„Núgildandi lagaákvæði um Menningarsjóð félagsheimila er að finna í lögum nr. 107 frá 28. okt. 1970, um félagsheimili. Þar er gert ráð fyrir að í Félagsheimilasjóð renni skemmtanaskattur svo sem segir í lögum um skemmtanaskatt, en 10% af tekjum sjóðsins skuli varið til Menningarsjóðs félagsheimila sem hafi það hlutverk að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilum. Einnig hefur sjóðurinn heimild til þess að styrkja menningarstarfsemi utan félagsheimila „ef sérstaklega stendur á“ eins og það er orðað í lögunum.“

Eins og hv. þm. muna var afgreiðslu frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frestað um sinn á hv. Alþingi, en það eru enn uppi áform um að bygging og rekstur félagsheimila færist yfir á sveitarfélögin. Frv. um verkaskiptinguna gerði ráð fyrir að Menningarsjóður félagsheimila héldi tekjustofnum sínum óháð þeim breytingum. Í ljósi þessa er augljóst að það er ástæða til þess nú að endurskoða hlutverk Menningarsjóðs félagsheimila, efla hann og skapa honum víðara verksvið. Spurningin er hvort ástæða er til að tengja starfsemi sjóðsins svo náið starfsemi félagsheimila sem í upphafi var gert ráð fyrir vegna þess hve menningarstarfsemi fer í miklum mæli fram utan félagsheimila í húsum sem hafa risið á síðustu árum, myndarlegum húsum eins og kirkjum, skólum og öðrum stöðum þar sem þessi aðstaða er fyrir hendi.

Það er sérstök ástæða til að kanna með hverjum hætti sjóðurinn geti stutt menningarstarfsemi á landsbyggðinni og stuðlað að því að tengja starfsemi ýmissa stofnana í höfuðborginni betur landsbyggðinni. Má í þessu sambandi t.d. nefna Listasafn Íslands sem nú hefur fengið mjög glæsilega starfsaðstöðu ásamt öðrum söfnum í höfuðborginni, leikhúsum og öðrum menningarstofnunum. Við bendum sérstaklega á í þessu sambandi að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur síðari árin leitast við að flytja tónlist út um landsbyggðina og mælist sú starfsemi mjög vel fyrir.

Efling Menningarsjóðsins gæti létt undir með þessum stofnunum í starfsemi þeirra og þá er ekki síður nauðsynlegt að sjóðurinn haldi áfram því starfi sem innt hefur verið af hendi og komið að miklu gagni því atvinnu- og áhugafólki sem sinnt hefur menningarmálum og því hlutverki að auka menningarstarfsemi, einkum á landsbyggðinni. Þar er þörfin mjög brýn fyrir þessa starfsemi og ég fullyrði að mikill áhugi er fyrir hendi.

Það er óhætt að fullyrða að Menningarsjóður félagsheimila hefur verið mikill hvati fyrir þessa starfsemi og einkum starfsemi áhugalisthópa eins og kóra, leikfélaga, tónlistarfélaga og fleiri þeirra aðila sem starfa að menningarmálum. Sérstaklega áberandi þáttur í starfsemi sjóðsins hefur verið stuðningur um myndlistarsýningar víða úti um landsbyggðina.

Þessi till. er, eins og fram hefur komið, um menningarmál og þótt efnishyggja setji nú mjög sitt mark á samfélagið er ekki sanngjarnt að segja annað en að í þessum málum sé allmikil gróska um þessar mundir. Það er jafnréttismál að þjóðin geti öll notið þessarar grósku og notið þess sem okkar listamenn og menningarfrömuðir hafa upp á að bjóða. Reyndar er þessi þáttur mikilvægur í því að skapa fjölbreytt og innihaldsríkt mannlíf um land allt. Ég þekki það að úti um landsbyggðina hefur fólk lagt mikið á sig af einskærum áhuga í söng, í leiklist og fleiri menningarefnum. Þetta starf þarf að efla og kemur þar margt til. Þar kemur til þörfin fyrir félagsskap annarra manna, þörfin fyrir að skapa eitthvað, vera veitandi en ekki þiggjandi í menningarefnum.

Hér í höfuðborginni eru flestar þær stofnanir sem hafa list og menningarefni að atvinnu. Hér eru atvinnuleikhúsin, hér eru aðalstöðvar myndlistarinnar, en ótrúleg gróska er á því sviði. Hér er nýrisið hið glæsilega hús Listasafns Íslands sem veitir nýja möguleika í starfi þeirrar stofnunar. Hér er sönglíf og tónlistarlíf atvinnumanna með ótrúlega miklum blóma. Þessari starfsemi þarf að miðla til allra landsmanna og það er trúa mín að áhugamenn og atvinnumenn hafi mikið að bjóða í þessum efnum hver með sínum hætti. Áhugamennirnir bjóða upp á leikgleðina, sönggleðina og hinn smitandi áhuga og sköpunargleði sem rekur menn áfram í menningarefnum. Atvinnumennirnir bjóða upp á fagmennskuna og fágunina í þessum efnum sem verður hinum hvatning til dáða.

Hlutverk Menningarsjóðs félagsheimila þarf að vera að veita þessum straumum saman, efla listflutning og samskipti á menningarsviðinu, en til þess þarf að efla sjóðinn fjárhagslega, færa út starfssvið hans til þess m.a. að stórefla listflutning frá atvinnumönnum hér syðra út um landsbyggðina og örva áhugamenn úti á landi og hér í höfuðborginni til að miðla verkum sínum til sem flestra.

Þegar litið er yfir styrki sjóðsins á undanförnum árum kemur í ljós að hann hefur komið ótrúlega víða við, af litlum efnum þó. Sjóðurinn hefur eins og kunnugt er búið við skerðingar sem hafa haldist í hendur við skerðingar sem hafa verið settar á Félagsheimilasjóð í lánsfjárlögum. Það er nauðsynlegt að sjóðurinn fái sitt framlag af skemmtanaskattinum sem mundi efla tekjur sjóðsins mjög verulega og allt umfram þær tekjur mundi verða mikil vítamínsprauta fyrir list- og menningarstarfsemi í landinu. Hér mætti gera mikið með tiltölulega litlum fjárútlátum miðað við margt annað.

Till. er einföld í sniðum. Ég treysti starfsmönnum menntmrn. mætavel til að gera tillögur um eflingu sjóðsins og víðtækari starfsemi og ég tel að það sé vel við hæfi að Alþingi feli þeim að gera það og sýni málinu stuðning með þeim hætti. Sérstaklega ber að athuga, eins og ég hef áður sagt, hvort sjóðurinn geti ekki í ríkari mæli gert landsbyggðarfólki kleift að njóta listar atvinnumanna með því að stuðla að flutningi listar þeirra um landið. Því miður hefur það starf ekki verið nægilega öflugt á síðustu árum og má þar nefna leikhúsin sem dæmi.

Hins vegar kostar þetta fjármuni. Aukin starfsemi á þessu sviði má ekki rýra þann mikilvæga þátt í starfsemi sjóðsins að örva listflutning atvinnumanna. Það ætti að vera nægur tími til að undirbyggja tillögur um fjárhagslega eflingu sjóðsins og aukin verkefni hans fyrir næsta þing þannig að endurskipulagning í þessu efni gæti legið fyrir um næstu áramót.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. allshn.