21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5929 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

361. mál, Menningarsjóður félagsheimila

Málmfríður Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Hlutverk Menningarsjóðs félagsheimila er samkvæmt lögum það að stuðla að menningarstarfsemi í félagsheimilum og einnig er heimild fyrir hendi að styrkja menningarstarfsemi utan þeirra ef sérstaklega stendur á, eins og það er orðað.

Félagsheimilin úti um land eru hvert á sínum stað mikilvæg sameiningarmiðstöð byggðarlagsins. Sá staður þar sem fólk kemur saman til félagsstarfa, til að eiga sameiginlegar stundir við tónlist, leiklist og skemmtanir, við menningarstarfsemi. Hvernig svo er búið að menningarstarfsemi á landi okkar yfirleitt er sérkapítuli, en hér vil ég minna á þá menningarstarfsemi sem fram fer í félagsheimilum vítt um land þar sem fólkið í byggðarlögunum mætir á söngæfingar, leikæfingar og til fjölbreyttrar félagslegrar starfsemi sem er í rauninni undirstaða menningarlegs lífs. Þetta fólk sest ekki á hverju kvöldi við sjónvarpið og lætur það mata sig á meira og minna óþjóðlegu og lítt menningarlegu efni. Þetta fólk ver hvíldartíma sínum til að veita umhverfi sínu aukið gildi, meira innihald en það sem fæst með brauðstritinu einu saman. Þó að brauðstritið kunni að veita mönnum sæmilega lífsafkomu þarfnast menn fleira en þess eins að hafa nóg að bíta og brenna. Menn þarfnast menningar, lista, fagurra hluta og sköpunar og eigin þátttöku í þessum greinum og tækifæra til að njóta þeirra. Hvers vegna flyst fólk úr byggðum þar sem afkoma þess er góð og ekkert virðist skorta í efnalegu tilliti? Er ekki ein orsök þess vanmat á gildi félags- og menningarlífs og þar af leiðandi skortur á tækifærum til að njóta menningar og lista?

Það eru fleiri félagslegir þættir sem fléttast inn í þetta og það verður ekki rætt hér, en þessi þáttur, sem ég drap á, er mikilvægur og má ekki gleymast. Ég fullyrði að víða má sjá í ýmsu beint samband milli festu fólks í byggðum og tækifæranna sem bjóðast til þess að njóta menningar og lista.

Öflug byggðastefna byggist á fleiru en atvinnumöguleikum og efnahag. Hún er ekki síður fólgin í því að búa vel að menntunar- og menningarmálum. Nú um stundir, þegar helst þarf að meta allt til fjár, er ekki úr vegi að benda á að það er beinlínis arðbært að leggja fé í félagsstarfsemi og listir og hlúa að þeim og stuðla þannig að andlegri vellíðan fólks. Ánægðir, starfsglaðir og vakandi íbúar eru mesti auður hvers byggðarlags því í þeim er fólgin uppspretta framfara og vaxandi velmegunar. Væri Menningarsjóður félagsheimila efldur og honum skapað víðara verksvið en nú er, eins og rætt er um í grg., er það tvímælalaust til eflingar landsbyggðarinnar og kæmi til styrktar því atvinnu- og áhugafólki sem starfar að menningarmálum um hinar dreifðu byggðir landsins.

Hv. flm. hefur gert góða grein fyrir tilgangi þessa þingmáls og ég kom hér í stól til að lýsa yfir stuðningi Kvennalistans við till. og ég fagna því að hún skuli hafa verið borin fram.