21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5936 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

379. mál, réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði sem er 379. mál Sþ. á þskj. 718. Flytjendur auk mín eru hv. þingkonur Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að gera sérstakt átak til að kynna fólki á vinnumarkaðinum réttindi sín og skyldur. Í því skyni skipi ráðherra sjö manna nefnd er kanni:

1. Hvernig best megi tryggja að allir er ráðast til starfa á almennum vinnumarkaði þekki réttindi sín og skyldur, þar með talin launakjör, lífeyrisréttindi, reglur um hvíldartíma, orlofsgreiðslur og uppsagnarákvæði. Nefndin kanni hvort lögbinding starfssamninga milli einstaklinga og atvinnurekenda sé æskileg leið til að tryggja að enginn sé ráðinn í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur. Nefndin kanni enn fremur hvernig fræðsla um þessi mál yrði best felld inn í skólakerfið.

2. Hvernig best megi tryggja að einstaklingar er fá laun sín greidd sem verktakar eða eftir uppmælingu njóti eigi lakari kjara en launþegar í hliðstæðum störfum. Tekið sé tillit til heildarlauna, vinnutíma, álags í starfi, lífeyrisréttinda og orlofs. Leitað verði upplýsinga um hve margir séu utan stéttarfélaga á vinnumarkaðinum.

Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en í júní 1989.“

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Mikill meiri hluti vinnufærs fólks stundar nú vinnu á almennum vinnumarkaði. Það ætti að vera réttur sérhvers manns í þessum stóra hópi að geta framfleytt sér af vinnu sem byggist á hóflegu vinnuframlagi.

Íslensk vinnulöggjöf er að stofni til frá fjórða áratug þessarar aldar og miðast um margt við aðstæður þess tíma. Algengast var þá að menn stunduðu almenna launavinnu og fengju greitt fast tímakaup eða fast mánaðarkaup. Þetta er að breytast. Sífellt fleiri eru ráðnir samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar í störf sem áður voru unnin á föstu tíma- eða mánaðarkaupi. Fjöldi fólks telur sig bera meira úr býtum á þennan hátt, útborguð laun eru hærri. En er það svo? Um það er ekki vitað. Fleiri krónur í budduna þurfa ekki að merkja betri kjör. Margir, sem vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar, njóta hvorki orlofs né eru venjuleg launatengd gjöld greidd af kaupi þeirra. Atvinnuöryggi þeirra er lítið því að þeir eiga hvorki rétt á að fá veikindadaga greidda né uppsagnarfrest. Vinnuveitendur þessa fólks greiða ekki að sínum hluta í lífeyrissjóð og brögð munu vera að því að ákvæðisvinnufólk og einstaklingar sem vinna sem verktakar greiði ekki í lífeyrissjóð þótt í lögum nr. 55/1980 standi skýrum stöfum í 2. gr., með leyfi forseta:

„Öllum launamönnum og þeim, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi lífeyrissjóðurinn samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu.“

Vinnutíma og álag innan þessa hóps þarf að kanna sérstaklega. Nefnd sú sem hér er lagt til að verði skipuð þyrfti að láta gera samanburðarkönnun á ákvæðisvinnu, tímavinnu og störfum einstaklinga sem fá greitt sem verktakar. Könnunin þarf að taka til meðalvinnutíma og vinnutekna og álags starfanna. Mat á álagi hefur áður verið kannað í einstökum stéttum og má benda á ýmsar kannanir Vinnueftirlits ríkisins, könnun er gerð var að frumkvæði ASÍ, Landssambands iðnverkafólks og VMSÍ árið 1982, „Fiskvinnsla. Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks“, er gefin var út árið 1984, og skýrslu sömu aðila er gerð var sama ár, „Fata- og vefjariðnaður. Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks“ sem út kom í febrúar árið 1985.

Víðtækar breytingar hafa orðið á vinnumarkaðinum og ástæða til að ætla að þessar breytingar geti orðið enn meiri. Með upplýsingabyltingu og tölvuvæðingu er áætlað að vinna geti færst meira inn á heimilin á nýjan leik þar sem hver situr við sinn skjá og vinnur að tilteknum verkefnum. Ekki er ljóst hvernig slík vinna yrði metin og því er fyllilega tímabært að hafa þessa framtíðarsýn einnig í huga. Einnig hafa ýmsar hugmyndir um breytt fyrirkomulag á stéttarfélögum verið til umræðu. Þar má einkum nefna stofnun vinnustaðafélaga.

Til að mæta þessum breyttu aðstæðum og vera búin undir frekari breytingar er nauðsynlegt að fylgjast vel með þróuninni og bregðast við henni á raunhæfan hátt. Í fyrsta lagi með því að gera sér grein fyrir hvað breytingar á vinnumarkaðinum hafa í för með sér fyrir starfsfólk í ýmsum starfsgreinum. Í öðru lagi með því að stórefla vitund og þekkingu fólks á vinnumarkaðinum á réttindum sínum og skyldum. Það ættu að vera lágmarksmannréttindi allra að fá einhverja fræðslu um vinnumarkaðinn á meðan á skyldunámi stendur. Líklegt er að þessi fræðsla ætti heima í efstu bekkjum grunnskólans og henni þyrfti síðan að fylgja eftir í framhaldsskólum. Einnig ættu að vera sjálfsögð mannréttindi að enginn gæti ráðist í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur frá fyrsta degi. Þetta mætti gera með því að binda í lög að engan mætti ráða í vinnu eða í einstök verkefni án þess að við hann væri gerður bindandi starfssamningur. Mikilvægt er að vinna að þessum málum í góðri samvinnu við stærstu launþegasamtök landsins. Starfssamningur mundi ekki aðeins verða til hagsbóta fyrir þá er vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar heldur einnig fyrir almenna launþega. Ef allir sem selja vinnu sína á vinnumarkaðinum fengju frá upphafi yfirlit yfir laun sín, réttindi og skyldur yrði auðveldara fyrir hvern og einn að fá yfirsýn yfir kjör sín. Miðlun upplýsinga um kaup og kjör á vinnumarkaði yrði markvissari ef slíkir samningar væru fyrir hendi.

Á þessu máli er fyllilega tímabært að taka en án upplýsinga er erfitt að gera sér grein fyrir sífellt flóknari vinnumarkaði.

Þessi upphafsorð mín hér í dag eru jafnframt grg. þáltill. minnar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði er ég flyt ásamt öðrum þingkonum Kvennalistans.

Við stöndum nú frammi fyrir því að verið er að gera samninga í gríð og erg út um allt þjóðfélagið. Oft vill gleymast að utan við þá samninga starfar hópur fólks sem varla er hægt að kalla annað en launafólk, en þiggur laun eftir einhverjum öðrum útreikningum en samningum launþega og vinnuveitenda, eða ætti ég frekar að segja vinnusala og vinnuþega. Þar er ég ekki að tala um fólkið sem er á fullri ferð upp á við með launaskriðinu, yfirborgunum og öllum þeim greiðslum sem keyra upp meðaltöl þau sem láglaunafólk fær aldrei greitt eftir en þykja sanna að Íslendingar hafi það að meðaltali afskaplega gott. Nei, ég er að tala um alla hina sem standa utan samninga og ég tel utan siðferðilegra laga og réttar á vinnumarkaðinum. Allt frá þeim sem una glaðir við ágæta samninga á einstaklingsgrunni til þeirra sem talað er um sem gráan eða svartan láglaunamarkað hér á landi.

Þáltill. sú er ég mæli hér fyrir er hugsuð sem fyrsta skrefið í áttina að því að gera sér grein fyrir kjörum þeirra sem starfa sjálfstætt, hvernig að þeim er búið og um hve stóran hluta vinnumarkaðarins er hér að ræða. Jafnframt eru hugmyndir um aukna fræðslu um vinnumarkaðinn og starfssamning við ráðningu í nýja vinnu hugsaðir sem leið til að gera öllum á almennum vinnumarkaði kleift að fylgjast grannt með kjörum sínum og vega og meta hvort þeim er betur borgið innan eða utan stéttarfélaga. Án upplýsinga er útilokað að þekkja rétt sinn og skyldur.

En lítum fyrst á einstaklinga sem vinna sem verktakar eða í einhvers konar ákvæðisvinnu, yfirleitt utan stéttarfélaga. Þá kemur fyrst í ljós að hér er um að ræða fólk sem er ráðið á alls konar kjörum í ýmis störf á vinnumarkaðnum. Ég hef takmarkað mig við þá sem þiggja laun sem einstaklingar án þess að hafa stofnað fyrirtæki eða fengið aðra með sér í vinnu. Þar er oft um mun flóknara dæmi að ræða en ég geri ráð fyrir að sú nefnd sem ég legg til að verði skipuð hafi tíma til að kanna að svo stöddu. Tímamörkin, sem ég tel eðlilegt að nefndinni séu sett, byggjast á þeirri skoðun að fljótlega þurfi að gera sér grein fyrir hversu umfangsmikið mál er hér um að ræða.

Þótt við takmörkum okkur á þennan hátt er hér um mislitan hóp að ræða og kjörin innan hans eru ákaflega breytileg. Ýmsir hafa náð góðum samningum og bætt kjör sín með því að vinna verkefni gegn ákveðinni borgun í stað þess að vera í launavinnu sem byggist á tímakaupi. Einstaklingar sem vinna sem verktakar geta dregið útlagðan kostnað frá kaupi sínu og fólk í ákvæðisvinnu hefur oft náð ágætum samningum einnig.

Hinu er ekki að neita að þegar dæmið er reiknað til enda er hátt kaup þessa fólks ekki alltaf svo mikið hærra en það gæti fengið fyrir tímamælda vinnu. Hér á ég að sjálfsögðu við þá staðreynd sem ég nefni í grg. þessarar þáltill. að fólk verður sjálft að greiða í lífeyrissjóð, það nýtur ekki orlofs, uppsagnarfrests, réttinda í veikindafríi eða annarra réttinda sem smátt og smátt hafa fengist með baráttu stéttarfélaga fyrir bættum hag félaga sinna. Þess vegna er það umhugsunarefni hvort sá hópur fer stækkandi sem vinnur utan þess kerfis sem stéttarfélög taka til. Mig grunar að svo sé. En hvort hægt verður að safna marktækum upplýsingum um það atriði verður að koma í ljós með skipulagðri könnun á því máli.

En þótt ýmsir hafi náð góðum samningum með því að semja um kjör sín utan ramma samninga stéttarfélaganna er ekki svo um alla. Mig grunar að könnun sú sem hér er um rætt leiði í ljós að stór hópur sé nú á vinnumarkaðnum í störfum sem áður fyrr þótti sjálfsagt að ráða í samkvæmt samningum stéttarfélaga. Þetta fólk vinnur á alls konar launum góðum og slæmum. Unglingarnir sem vinna í sjoppunum, framhaldsskólanemarnir á veitingahúsunum, „pokadýrin“ í stórmörkuðunum. Í öllum þessum hópum viðgangast alls konar launagreiðslur, jafnaðarlaun og útreikningar sem vinnusalar hafa litla möguleika á að meta. Stundum er farið eftir samningum, í öðrum tilvikum virðist svo ekki vera.

Ég tel nauðsynlegt að nefnd þessi verði skipuð a.m.k. að hluta fólki sem er í nánum tengslum við launþegafélög og þekkir vinnumarkaðinn glöggt. Umræður um breytingar á vinnumarkaðinum eru mjög lifandi um þessar mundir og ýmsum spurningum hefur verið velt upp sem sumar hverjar varða þetta mál aðrar ekki. Ef spurningin um kjör þessa hóps er brýn núna grunar mig að hún verði enn brýnni í framtíðinni. Margt bendir til að fram undan séu stórfelldar breytingar á launakerfum og stéttarfélögum. Það yrði mikil afturför ef þessar breytingar yrðu til þess að réttindi, sem áratugi hefur tekið að fá viðurkennd og færð inn í samninga, hyrfu nú með breyttum aðstæðum og afstöðu til stéttarfélaga. Nýjar kynslóðir, sem oft þekkja ekki til kjarabaráttu liðinna áratuga, skynja e.t.v. ekki hve dýru verði sum þessi réttindi hafa verið keypt.

Hér þarf að vinna brautryðjendastarf. Ég tel að verði þessi nefnd sett á laggirnar verði það stórt skref í mannréttindaátt, því er ekki rétturinn til að þekkja stöðu sína og geta metið hana sjálfsögð mannréttindi, mannréttindi sem varla eru allra eins og málum er háttað?

Ég legg til að málinu verði að umræðu lokinni vísað til hv. félmn.