21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5942 í B-deild Alþingistíðinda. (4060)

379. mál, réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er út af fyrir sig alltaf ánægjulegt að fólk hefur áhuga á því að koma fræðslu á framfæri. Ég er þeirrar skoðunar að að því er þessa tillögu varðar sé æðimikið af þeirri fræðslu sem hún kynni að fjalla um þegar komið á framfæri.

Það er gífurlega mikil fræðslustarfsemi innan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar sem hefur verið haldið uppi af miklum krafti undangengin ár, m.a. í gegnum Menningar- og fræðslusamband alþýðu og í gegnum einstök stéttarfélög. Ég er ekki að tala gegn tillögunni og ekki er nú kannski pólitískt rétt á þessum tíma að andmæla hv. kvennalistakonum mikið og ég er heldur ekki að því, en ég er alltaf mjög efins um ágæti útkomu nefndarskipana. Þær geta út af fyrir sig verið góðar og geta gegnt hlutverki, en þá þarf það að vera algjörlega afmarkað og auðvitað þarf eitthvert fjármagn til slíkra hluta. Þetta kostar eitthvað og þá spyrjum við hinir þessir varfærnu: Hvar á að taka peningana? Hvaðan eiga þeir að koma? Á þetta finnst mér vanta því að ef menn ætla að sinna því verkefni sem er verið að tala um, sem ég út af fyrir sig er ekki að gagnrýna neitt sérstaklega, er þetta æðimikið verk og kemur til með að kosta fjármuni.

Ég hjó eftir því hjá hv. frsm. - ég held að hún hafi orðað það svo að hún héldi að það væri talsverður hópur af fólki sem ekki hirti um að ganga í stéttarfélag eða ekki hirti um að leita réttar síns á vinnumarkaði. Hvað á að gera við slíkt fólk sem ekki vill hirða um sinn rétt þó það viti um hann? Enga þvingun þurfum við að setja á slíkt fólk, er það? Verður það ekki með einhverjum hætti að ákvarða þetta sjálft, gera það upp við sig hvort það vill nýta sér þann rétt sem búið er að skapa því í gegnum verkalýðshreyfinguna og stéttarfélögin? Ég er alveg handviss um að það er mikið af upplýsingum sem liggja fyrir en fólk vill ekki nýta sér. Það nýtir sér ekki þau tækifæri sem það hefur til þess að afla þekkingar eða upplýsinga um sinn rétt eða sína stöðu. Ef þessi tillaga, framkvæmd, gæti orðið til þess að fá hina hirðulausu um sinn rétt til þess að átta sig á ganginum og vera betur með væri hún af því góða. Ég er hins vegar ekki viss um að það gerist með þeim hætti. Þessi fræðsla er fyrir hendi að verulegu leyti fyrir þá sem hennar vilja njóta og ég er ekki viss um að nefndarskipun af þessu tagi mundi koma meiru til skila. Verði nefndin hins vegar sett á laggirnar spyr ég: Hvar á að fá peningana til að fjármagna?