22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5990 í B-deild Alþingistíðinda. (4069)

315. mál, grunnskóli

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki ástæða fyrir mig að hafa langt mál, en ég get þó ekki látið hjá liða að þakka flm. þessa frv. fyrir að hafa lagt það fram, hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur og hv. 6. þm. Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur. Það er búið að fjalla um einstök atriði frv. og sé ég ekki ástæðu til að fara neitt ítarlega út í það. Ég vildi fyrst og fremst taka undir grundvallarviðhorf sem endurspeglast í þessu frv. Mér finnst hv. 6. þm. Reykv. hafi í hnotskurn í sinni ítarlegu framsöguræðu gert grein fyrir þeim upplýsingum, viðhorfum og störfum, tveggja ára vinnu þess vinnuhóps sem hér hefur nokkrum sinnum verið getið um að hafi verið skipaður af hæstv. þáv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur. Enda er ýmislegt sem kemur fram í fskj. þessa frv. tekið upp úr þeirri skýrslu og þarf ég því ekki að hafa frekari orð um það. Ég vil aðeins geta þess hér að það var sérstaklega ánægjulegt að starfa í þessum vinnuhópi vegna þess að ég man ekki eftir því að það hafi nokkurn tímann komið fram ágreiningur um einstök atriði. Það var alltaf sameiginleg niðurstaða um þær tillögur eða þau viðhorf sem fram komu hjá hópnum og endurspeglast í þeim tveimur skýrslum sem gefnar voru út, annars vegar um þéttbýlið og hins vegar skýrsla um dreifbýlið. En eins og kom réttilega fram í máli hv. frsm., þá eru viðhorfin mjög ólík til skólamála, eins og svo margs annars þegar annars vegar er um að ræða dreifbýlið og hins vegar þéttbýlið.

Það eru þýðingarmikil atriði sem fjallað er sérstaklega um í þessu frv. og það er samfelld viðvera nemenda og kennara í skólunum. En eitt af vanda málunum sem oft endurspegluðust í viðræðum vinnuhópsins við ýmsa aðila var einmitt þetta vandamál innan kennarastéttarinnar líka, hvernig þeirra starfstíma og þeirra kjörum er háttað. Jafnvel eru þess dæmi að kennarar kenna á fleiri en einum vinnustað og eru á hlaupum á milli skóla sem kemur þá óneitanlega niður á stundaskrá og þar með niður á börnum. Þetta er eitt atriði sem vissulega er mikil þörf á að bæta úr.

Það er talað um nauðsyn þess að hafa athvarf fyrir nemendur utan kennslustunda. Þetta er líka ein af þeim ábendingum sem vinnuhópurinn lagði til. Það er að vísu í frv. talað um að það þurfi að vera sérmenntað starfsfólk sem eigi að ráða til þeirrar gæslu. Ég er ekki alveg viss um að það þurfi að leggja áherslu á það. Ég held að ef slíkt athvarf er í skóla, þá mætti nýta með ýmsum hætti aðra starfskrafta, ef nota má svo leiðinlegt orð sem starfskraftur er, þ.e. það þurfi ekki endilega að vera sérmenntað fólk í uppeldisfræðum heldur mætti þarna jafnvel hugsa sér foreldra eða jafnvel afa og ömmur. Ég held að það sé ekki svo mikið atriði að þar sé um sérfræðimenntað fólk í uppeldisstörfum að ræða.

Í þessu atriði var lögð áhersla á bókasöfnin, að þau gætu komið að miklu gagni einmitt varðandi viðveru nemendanna í skólanum utan kennslustunda.

Þá er eitt af þeim mikilvægu atriðum sem líka er fjallað um í frv. aðstaða fyrir nemendur til að neyta nestis eða matar í skólanum. Það var eitt af þeim atriðum sem vinnuhópurinn lagði mikla áherslu á að skipti miklu máli. Ef koma ætti upp aðstöðu, þ.e. með fullkomnum eldhúsum og öðru slíku í skólum, þá mundi það kosta mikið fjármagn. Við gerum okkur grein fyrir því. En það er eins með þetta, eins og reyndar þegar hefur verið gert og er verið að gera, að ég held að það sé hægt að leysa á ódýrari hátt og finna leiðir til þess. Ég held að þetta sé að þróast í rétta átt. Það er víðast hvar farið að gera tilraunir með nestismál skólabarna á ýmsan hátt. Sums staðar í skólum hafa verið ráðnir starfsmenn sem taka að sér t.d. að elda súpu og smyrja brauð. Það þekkist í skólum og víða hafa verið reyndir nestispakkarnir sem, eins og hér hefur reyndar komið fram fyrr, hafa viljað detta út vegna þess að krakkarnir. verða leiðir á þessum nestispökkum. Mjólkursamsalan, sem hér var einnig minnst á og við höfðum náið samráð við í okkar vinnu, gerði tilraunir með nestispakka og það var einmitt á síðasta kjörtímabili sem umrædd niðurgreiðsla á mjólk hófst til skólabarna til þess að koma til móts við þau og reyna að auka mjólkurneysluna í stað sykurdrykkjanna.

Það er staðreynd að aðrar þjóðir, t.d. Norðurlandaþjóðirnar, hafa reynt að bregðast við þessum vanda með skólamáltíðum. Við erum að byrja að bregðast við því. Það er þýðingarmikið atriði að börnin fái þessa hollu næringu. Það hafa rannsóknir sýnt sem gerðar hafa verið á skólabörnum, t.d. í Svíþjóð. Þær sönnuðu það að börn sem fengu ekki rétta og holla næringu í skólanum voru miklu verr í stakk búin til að sinna sínu námi en hin sem höfðu rétta og holla næringu á meðan á skólatíma stóð.

Mér þótti rétt að hnykkja aðeins á þessum atriðum. Ég fagna þeirri jákvæðu og ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þessi mál vegna þessa frv.

Það kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. og reyndar hv. 6. þm. Vesturl. einnig að það skipti miklu máli hvernig kjörum kennara væri háttað til þess að hægt væri að manna skólana og ég vil svo sannarlega taka undir það. Ég vil minna á að það hefur verið sýndur í verki skilningur á þýðingu þessa með þeim bættu launakjörum kennara sem urðu í kjarasamningum - ég man ekki hvort það var á síðasta ári en alla vega á síðasta kjörtímabili - sem var umtalsvert þó að alltaf megi sjálfsagt gera betur. En það er meginatriði að vinnutíma kennara sé þannig háttað að þeir séu til staðar, að þeir hafi þessa samfelldu viðveru eins og nemendurnir og það sé hægt að nýta þeirra vinnu á skólatíma, jafnvel þó að þeir séu ekki endilega inni í kennslustundum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem m.a. komu fram í umræðum innan vinnuhópsins sem ég vitnaði til.

Ég vil sem sagt taka undir það að menntun og líðan kennarans í skólanum skiptir auðvitað miklu máli, en ég vil jafnframt minna á það að það skiptir meginmáli hvernig barninu líður í skólanum. Við megum ekki gleyma því að skólinn er til fyrir barnið en ekki öfugt. En það er eins og það vilji nú stundum gleymast. Og varðandi vinnustaðamáltíðir og nestismál skólabarna, þá vitum við það að í öllum kjarasamningum er verið að semja um niðurgreiddan mat til fólks í alls konar stofnunum og vinnustöðum en það þykir kannski ekki eins sjálfsagt þegar komið er að börnunum og það mættum við hugleiða líka.

Ég vil aðeins að lokum láta þess getið að það kemur mér á óvart að í þessu frv. er ekki tekið sérstaklega á þeim þætti sem varðar aukið samstarf heimila og skóla, um dagleg störf skólans. Þá á ég við í raun og veru þá róttækustu tillögu sem fram kom hjá vinnuhópnum og þá einu sem sérstaklega var getið um að þyrfti lagabreytingu til að koma í framkvæmd - og það var um að stofna sérstök skólaráð. En vinnuhópurinn mælti eindregið með því að við hvern grunnskóla skuli starfa skólaráð sem sé stjórn skólans til ráðuneytis um innri mál hans, svo sem kennsluskipan, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir, félagslíf í skólanum og fleira sem varðar daglega starfsemi hans. Í þessu skólaráði var gert ráð fyrir að foreldrar ættu sinn fulltrúa og þannig var það hugsað að koma mætti á nánara samstarfi milli foreldra og skóla svo að foreldrar ættu kost á því í gegnum sinn fulltrúa að fylgjast betur með hvernig háttað væri hinu daglega starfi skólans. Ég vil taka fram að það er ekki gert ráð fyrir að slíkt skólaráð sitji fundi á hverjum degi heldur komi saman kannski að vori, hausti og einu sinni um miðjan vetur eða slíkt.

Ég flutti um þetta frv. í beinu framhaldi af þessum tillögum vinnuhópsins. Það frv. náði ekki fram að ganga en ég hafði gert ráð fyrir því að vera búin að leggja það fram nú, endurflytja það, en af sérstökum ástæðum, sem ég hirði nú ekki um að fara að tíunda hér, þá gat ekki orðið af því. En ég vil láta þess getið að ég mun endurflytja þetta frv. mitt og vænti þess að það fái stuðning sem flestra og þá ekki síst hv. þm. Kvennalistans sem áður hafa lýst stuðningi við það mál.