22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5993 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

315. mál, grunnskóli

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að sú framtíðarsýn sem kemur fram í þessu frv. er í anda okkar jafnaðarmanna. Reyndar eru alls ekki miklar deilur um það hvernig málum skuli skipað í skólamálum. Stjórnmálaflokkar þeir sem hér starfa eru flestir einhuga um að hverju skuli stefnt. Það sem menn deila um er hvernig skuli gera hlutina og hvaða fjármagn skuli til þeirra ætlað.

Ég get ekki að því gert að það hvarflar að mér að hér sé fyrst og fremst um yfirboð að ræða. Það er reyndar látið að því liggja að þetta séu hugmyndir sem ákveðinn vinnuhópur hafi að meginstofni til mótað og ekki ætla ég að blanda mér í þær deilur eða tilgátur. Hins vegar eru þetta í sjálfu sér atriði sem menn geta verið sammála um.

Vissulega vildum við öll stefna miklu lengra í þá átt að auka fræðslu og bæta aðbúnað barna í þjóðfélaginu. En það eru ekki allir sammála um það hvernig skuli byggja upp velferðarkerfið. Þeir hinir sömu sem gera miklar kröfur í þessum efnum veina svo af vandlætingu yfir skattlagningu, öskra og veina yfir skattlagningu og neita að standa að því að afla fjár til að byggja upp velferðarkerfið, vitandi það að hér á Íslandi eru skattar lægri en víðast í Evrópulöndum. Ef framkvæma á þær hugmyndir sem hér eru reifaðar þá er verið að tala um ekki minna en 3 milljarða í stofnkostnað, sennilega 3,5 og í rekstrarkostnað 1,5 milljarða á ári. Á sama tíma liggur það fyrir að í ár er aðeins varið 350 millj. kr. í skólabyggingar. Það er ekki af því að menn vilji ekki gera betur. Það er af því að fjármunir eru af skornum skammti.

Vita menn hvaða fjármagni er varið til þess að byggja sjúkrahús og heilsugæslu yfir allt landið? Það eru litlar 170 millj. kr. Á sama tíma þarf gamalt fólk og aðrir sem eru veikburða að búa við hinar verstu aðstæður.

Vita menn það líka að grunnskólalögin, sem nú eru í gildi, hefur ekki enn nærri því tekist að framkvæma? Gera menn sér grein fyrir því að mikið vantar á að námsbækur svari kröfum tímans? Ég var fyrir nokkru að hlýða syni mínum yfir í landafræði og það minnti mig óþyrmilega á það að sú landafræðibók sem er kennd núna er sama landafræðibókin og ég var að kenna þegar ég var í því starfi og orðin algerlega úrelt. Á sama tíma og slíkar kennslubækur eru notaðar, þar sem beinlínis er rangt farið með staðreyndir, m.a. varðandi næstu nágrannalönd okkar, kostar ríkið hundruð farseðla til þess að ástunda norræna samvinnu. Ég verð að játa það að mér finnst ástæða til að byrja á því að bæta úr á þessu sviði og veita fjármagni í það.

Vita menn við hvílíkt óhagræði fatlaðir búa í þjóðfélaginu? Mikið fötluð börn í Keflavík verður að flytja daglega til Reykjavíkur til þess að þau geti notið fræðslu. Þessi börn verða að hafast við í bifreiðum í tvo tíma á dag auk þess langa tíma sem þau eru í skólanum. Það er ekki til fé til að byggja skóla fyrir þetta fræðslustarf. Til byggingar sem ætluð er til þessara þarfa var varið rúmri 1 millj. kr. frá ríkinu í ár.

Svona er þetta alls staðar þar sem við berum niður. Það skortir fjármuni til að byggja upp það velferðarkerfi sem menn vilja koma á — flestir. En menn eru ekki sammála um það hvort og hvar þá skuli taka. Við teljum það jafnaðarmenn að það þurfi að tryggja að til séu fjármunir til þess að framkvæma hlutina. Og mér sýnist að verði það frv. sem hér liggur fyrir samþykkt þá verði það fyrst um sinn aðeins óskalisti ef ekki er tryggt fjármagn til að framkvæma það. A.m.k. á meðan þau lög sem þegar eru í gildi eru ekki framkvæmd til fullnustu. Og að samþykkja lög sem kalla á fjárveitingar án þess að tryggja fjármuni til þess, það finnst mér rangt. Því skora ég á þá sem eru mjög áfram um að koma málinu fram að gera jafnframt grein fyrir því hvar skuli taka þá peninga sem þarf til að framkvæma þau lög. Ég tel það alveg nauðsynlegt í þessari umræðu. Þetta frv. er, eins og ég hef getið um áður, um sjálfsagða hluti en þó eru þeir ekki sjálfsagðir á meðan ekki er til fé til þess að framkvæma þá.

Ég get allt gott um þetta frv. sagt að öðru leyti en því að mér sýnist að grundvöllinn skorti. Ég minni á það aftur að við upplifum það hér í þinginu hvað eftir annað að þeir sömu sem harðast berjast gegn skattheimtu eru jafnframt harðastir í að koma með tillögur sem kosta fé. Þarna verður að breyta til. Það þarf reyndar víða. Það er rétt sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan að það þarf nýtt gildismat í þessu máli. Við þurfum að ganga miklu lengra til þess að byggja upp það velferðarkerfi sem flestir vilja koma á, en við göngum ekki þá göngu nema þm. samþykki að veita meiri fjármuni til framkvæmdar þeirra laga sem þeir samþykkja.