22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6004 í B-deild Alþingistíðinda. (4079)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. 1. minni hl. iðnn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. varð nefndin ekki einhuga um afgreiðslu þessa máls og því skila ég séráliti.

Með samþykkt þessa frv. er Alþingi að afsala sér valdi, sem það hefur nú, í hendur iðnrh. Ég tel að það sé óskynsamlegt. Það sé réttara að það sé ákvörðun Alþingis hverju sinni hvort útlendingum er heimilað að eiga meiri hluta í fyrirtækjum á Íslandi fremur en að láta það verða geðþóttaákvörðun iðnrh.

Við umfjöllun í nefndinni kom og fram að ástæðan fyrir flutningi frv. er sú að erlend efnaiðnaðarfyrirtæki hafa áhuga á að setja hér upp efnaiðnað með þátttöku íslensks fyrirtækis. Ekki fékkst upplýst nákvæmlega um hvers konar efnaiðnað væri að ræða. Undirritaður telur að eðlileg aðferð væri að leggja fram frv. um það samstarfsverkefni sem kann að vera góðra gjalda vert þó ég viti það ekki á þessari stundu. En ég treysti mér ekki til að standa að því valdaafsali Alþingis sem hér er um að ræða og því legg ég til að þetta frv. verði fellt.