22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6005 í B-deild Alþingistíðinda. (4081)

60. mál, iðnaðarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Alþb. á ekki fulltrúa í hv. iðnn. Nd. og ég vil því aðeins gera grein fyrir skoðunum okkar alþýðubandalagsmanna á því frv. sem hér er verið að ræða.

Þetta frv. er eins og kunnugt er flutt til þess að veita iðnrh. heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. iðnaðarlaga um að meira en helmingur hlutafjár í iðnfyrirtækjum hér á landi skuli vera eign manna búsettra á Íslandi.

Ég er mjög sammála því sem komið hefur fram í nál. minni hl. í hv. nefnd og í Ed. hefur hv. þm. Svavar Gestsson gert ítarlega grein fyrir afstöðu Alþb. varðandi þetta frv.

Hér er nefnilega ekki um neitt smámál að ræða. Rök iðnrh., sem hann flutti sem aðalrök fyrir flutningi frv., voru þau að hér væri verið að hverfa aftur til fyrri laga, en það má benda hv. þm. á að þegar iðnaðarlögunum var breytt árið 1978 var fellt niður ákvæði um að ráðherra væri heimilt að opna fyrir meirihlutaeign útlendinga í fyrirtækjum. Þá var, eins og alkunna er, hæstv. fyrrv. ráðherra Gunnar Thoroddsen framsögumaður málsins.

Það má einnig benda á að þá voru menn þeirrar skoðunar að heldur bæri að þrengja þessi ákvæði en hitt og gekk þar vasklega fram Halldór Ásgrímsson, hæstv. núv. ráðherra, og benti á að það væri tryggara að til þess væri gerð krafa að viðkomandi menn hefðu verið búsettir hér um ákveðinn tíma sem eignuðust meirihlutaaðild að íslenskum fyrirtækjum.

Hér er þess vegna verið að opna fyrir heimildir sem okkur stendur ógn af og ekki síst má benda á að í þeirri miklu umræðu sem nú á sér stað um stöðu Íslendinga og íslensks efnahagslífs gagnvart EFTA og Efnahagsbandalaginu held ég að ekki sé tímabært að gera þessa breytingu nú fyrr en þau mál hafa skýrst. Ég bendi á að nú liggur fyrir þinginu nýframkomin till. til þál. um stefnu Íslendinga gagnvart Evrópubandalaginu og er flm. hv. þm. Kjartan Jóhannsson. Ég held að menn ættu að kynna sér það mál nokkuð áður en rokið er í að samþykkja þá breytingu sem hér liggur fyrir.

Við alþýðubandalagsmenn munum ekki greiða þessu frv. atkvæði okkar, og vörum sterklega við því að það verði samþykkt, teljum það ekki tímabært og litla ástæðu liggja til að samþykkja það hér og nú. Það er alveg ljóst að hér er verið að greiða fyrir einu ákveðnu máli. Þannig á aldrei að setja lög heldur á að gera það eftir vandlega yfirvegun og eftir vandlega skoðun málsins.

Vitanlega væri nær að taka þessi mál öll fyrir á miklu víðari og breiðari grundvelli og vissulega hefði verið eðlilegra að allir flokkar hefðu átt aðild að endurskoðun laga um þennan þýðingarmikla þátt efnahagsmála í stað þess að koma með svo sakleysislegt en þó svo alvarlegt mál eitt og sér.

Ég vil þess vegna lýsa því yfir að við munum greiða atkvæði gegn frv.