22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6006 í B-deild Alþingistíðinda. (4082)

60. mál, iðnaðarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, hér er ekki stórt frv. í sniðum. Það er aðeins, með leyfi forseta, að við 2. málsgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: „Iðnrh. er jafnframt heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 3. tölul., enda standi sérstaklega á.“

Þetta er náttúrlega framhald af öðru sem hefur verið að gerast í þessu þjóðfélagi þar sem frjálshyggjan veður uppi. (Iðnrh.: Jæja.) (ÓÞÞ: Veður hún ekki uppi?) Ég sagði „þar sem“. Þetta er bara í framhaldi af því sem við höfum horft á. Ég skil ekki þá menn sem standa að svona máli, ekki síst eins og mál standa nú. Iðnrh., hver sem hann er, gæti gefið heimildir án samráðs a.m.k. við þing og jafnvel við ríkisstjórn ef maður tæki þetta eins og orðanna hljóðan er í þessu frv.

Við vitum að það eru uppi raddir í þessu þjóðfélagi um að það þurfi að athuga að við verðum aðilar að Efnahagsbandalaginu. Það eru ýmsir sem eru þeirrar skoðunar að það sé ekkert athugavert við það þó erlent fjármagn flæði hér inn og nái tangarhaldi í íslenskum atvinnurekstri. Ég held að það sé alveg lágmark þegar um svona mál er að ræða að þau fari fyrir Alþingi hverju sinni en ekki að einn maður, hvað góður sem hann er, geti afgreitt málið án þess að um það sé fjallað. Jafnvel þó menn væru þeirrar skoðunar að það eigi að losa eitthvað um vantar þarna öryggisventil. Ekki síst þar sem umræðan er komin á það stig sem er í þessu þjóðfélagi.

Ég er raunar hissa á að t.d. hæstv. iðnrh. skuli blátt áfram vilja hafa þetta vald og fá á sig þrýsting frá ýmsum sem gæti verið óþægilegur fyrir hann eða hvern sem er í þessu sæti.

Ég held að hv. þm. þurfi vel að huga að þessu máli áður en þeir samþykkja það. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan, að það þarf að hugsa þetta mál í samhengi við svo margt annað sem við stöndum nú frammi fyrir. Ég vil t.d. ekki trúa því að hv. þm. Framsfl. séu það heillum horfnir að þeir, nokkur þeirra, standi að svona máli. Þá er a.m.k. illa fyrir þeim komið. Og það er umhugsunarvert að þetta skuli vera flutt sem stjfrv. Það hefur orðið alger stefnubreyting hjá t.d. Framsfl. ef þetta frv. hefur farið í gegnum þingflokkinn. En kannski er hætt alveg að bera svona mál undir þingflokkana, flokksræðið sé orðið svo yfirþyrmandi. Það væri eftir öðru.

Nei, ég held að þetta mál, þó það líti kannski sakleysislega út fyrir mörgum, sé í sjálfu sér með stærri málum sem við fjöllum um hér á hinu háa Alþingi. Og ég vil enn og aftur vara þm. við að axla þá ábyrgð að samþykkja slíkt frv.