22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6013 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. 2. minni hl. iðnn. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég er svo sein í vöfum að ég var ekki komin fyrr en nál. það sem ég hafði samið var lesið upp af kollega mínum, Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Ég vildi bæta nokkrum orðum við það sem í þessu nál. stendur og nokkrum orðum við það sem fram hefur komið hér í umræðunni.

Þegar Íslendingar hlutu frelsi sitt árið 1944 var styrjöld í veröldinni. Við urðum ríkari og ríkari og við vorum að lokum þessarar styrjaldar ansi auðug þjóð. Síðan hefur saxast á auð íslensku þjóðarinnar stanslaust og við höfum gripið til þess að fá fleiri og lengri og stærri lán. Ég held að sýnt geti verið að nú sé lánþanið erlendis að verða komið í hámark og hvað er þá fram undan, hvað getum við þá gert ef við viljum ekki grípa á efnahagsvandanum heldur ætlum að halda áfram á sömu háskabraut? Jú, það eina sem við getum gert er að veita erlendu fjármagni inn í landið.

Hv. 4. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson ræddi um að við þyrðum ekki í samstarf við aðrar þjóðir. Það er alrangt hjá honum. Við viljum bara ekki gefa erlendum aðilum tögl og hagldir í íslensku efnahagslífi. Þar liggur höfuðmismunurinn og það veit Kjartan Jóhannsson held ég alveg örugglega.

Það kom fram í fyrri umræðum um mál þetta að í heildarendurskoðun væru nú lög og reglur sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Sú endurskoðun er þörf og brýn þar eð reglurnar eru mismunandi eftir atvinnugreinum. En ef við í slíkri endurskoðun ljáum máls á því að erlendir aðilar geti haft tögl og hagldir í íslenskum atvinnurekstri erum við að leggja enn eina helluna í þá stétt sem liggur frá frelsi til helsis og við höfum verið svo iðin við að leggja á undanförnum árum.