22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6016 í B-deild Alþingistíðinda. (4088)

60. mál, iðnaðarlög

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til umræðu í Ed. og verið afgreitt úr þeirri hv. deild. Það var talsvert rætt við 1. umr. í hv. Nd. og þess vegna óþarfi að skýra ítarlega frá efnisinnihaldinu sem reyndar er ekki mjög flókið, kemst fyrir í fáum setningum en hefur að sjálfsögðu talsverða þýðingu, enda er lögð áhersla á að málið nái fram.

Það skal tekið fram að þetta er stjfrv. og það kom að sjálfsögðu þess vegna á óvart að tveir þm. ríkisstjórnarinnar skyldu snúast gegn frv. þegar við 1. umr., en það kemur ekki á óvart að þeir skuli ekki hafa skipt um skoðun á milli umræðna. En ég lít svo á að aðrir hv. þm. Framsfl. hljóti að styðja þetta frv., enda kom fram í umræðum í Ed.hæstv. sjútvrh. skýrði frá því að hann og flokkurinn væru stuðningsaðilar þessa frv. (ÓÞÞ: Hann og flokkurinn?) Já, a.m.k. meginþorri flokksins. Ég held að flestir hv. þm. átti sig á því að a.m.k. annar þeirra sem hefur snúist gegn frv., annar þeirra hv. þm. Framsfl., hefur stundum, a.m.k. í einstaka tilvikum, ekki stutt stjfrv. og ekki verið í frásögur færandi satt að segja.

Varðandi þetta ákvæði hefur það komið skýrt fram að það var í lögum um margra áratuga skeið. Það hefur jafnframt komið fram í umræðunum að annars staðar á Norðurlöndum hafa ríkisstjórnir verið að beita sér fyrir því að frekara fjármagnsflæði megi eiga sér stað á milli landa, ekki síst í formi áhættufjár eins og hér er verið að leggja til að geti gerst. Það skal jafnframt tekið fram að það er íslensk lögsaga yfir þeim fyrirtækjum sem starfa hér á landi. Hér er einungis verið að tala um eignaraðild. Eftir sem áður gilda aðrar lagareglur, þar á meðal lagareglur um það hverjir eigi að sitja í stjórn slíkra fyrirtækja, en um það eru skýrar reglur í íslenskum lögum. Öll önnur atriði, svo sem eins og þau sem varða skattamál, mengunarmál, vinnueftirlit og þess háttar, eru auðvitað samkvæmt íslenskum lögum, enda yrðu fyrirtæki, sem yrðu stofnuð á grundvelli þeirrar heimildar sem hér er verið að ræða, háð íslenskri lögsögu í öllum greinum.

Varðandi fsp. Guðrúnar Helgadóttur, hv. 13. þm. Reykv., veit ég að hæstv. forsrh. getur svarað því hvernig það nefndarstarf stendur.

Ég vil aðeins, herra forseti, leyfa mér að þakka nefndinni fyrir að hafa unnið sitt starf tiltölulega hratt og vel og enn fremur vil ég þakka formanni Borgarafl., hv. þm. Albert Guðmundssyni, fyrir stuðning hans og væntanlega Borgarafl. við frv. og vonast til þess að það geti orðið að lögum sem allra fyrst.