22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6019 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

60. mál, iðnaðarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar 1. umr. fór hér fram kom það greinilega fram í mínu máli hvers vegna ég væri á móti frv. Ég taldi að það að slík mál færu fyrir Alþingi væri trygging fyrir því að þau fengju verulega umfjöllun hverju sinni. Hvernig skyldi nú standa á því að það má t.d. ekki selja nokkra fasteign, fjmrh. má ekki selja nokkra fasteign öðruvísi en setja það í 6. gr. fjárlaga? Hvernig skyldi standa á því að yfirleitt, þó það séu undantekningar að vísu, má ekki selja jörð öðruvísi en það fari fyrir Alþingi, nema um óðalsrétt sé að ræða eða að maður sem er búinn að sitja svo og svo lengi á jörðinni hafi öðlast rétt til þess að kaupa? En svo er talið alveg sjálfsagt að ráðherra, í þessu tilfelli hæstv. iðnrh., geti án umfjöllunar Alþingis leyft útlendingum að eiga meiri hluta í fyrirtæki sem hér er reist. Er eitthvert samræmi í þessu?

Hv. 4. þm. Reykn. sagði: Ja, þetta er ekkert mál. Það er verið að færa í sama far og var fyrir 1978. Hvernig skyldi nú standa á því að það var sett ákvæði inn í iðnaðarlögin 1978? Var það alveg ástæðulaust? Var það gert af einhverju rangli? Var það slys? Veit ekki hv. 4. þm. Reykn. að það voru orðnir breyttir tímar frá því áður var og þeir hafa breyst enn? Þau rök sem voru fyrir þessu ákvæði fyrir langa löngu eru allt önnur í dag. Við sjáum bara og heyrum áhuga sumra í Efnahagsbandalaginu á að fá allar þjóðir þar inn og ekki síst Íslendinga. Þetta gæti verið aðferð til þess að ná tangarhaldi á íslenskum atvinnurekstri, að komast hér inn með fjármagn og ná hér vissum tökum í þjóðfélaginu.

Það er náttúrlega algjörlega út í hött sem hv. 4. þm. Reykn. sagði að það væri eitthvað háskalegt við það að menn gætu bara þurft að bíða allt upp í 9 mánuði til þess að fá afgreiðslu og það gæti riðið baggamuninn. Ég hélt að jafnvanur þm. og hv. 4. þm. Reykn. er vissi hvernig gangurinn er í þessum málum. Auðvitað mundi iðnrh. fara með þetta fyrir þingflokka stjórnarflokkanna ef um slíkt væri að ræða og tryggja það að hægt væri að skrifa undir slíka samninga með fyrirvara sem hann gæti sagt að væri 100%. Það væri líka hægt að gefa út bráðabirgðalög með því að fara líka með það fyrir þingflokkana. Annað eins hefur nú verið gert. Og þessi rök, það er bara ekki hægt að hlusta á svona ekki af reyndum hv. þingmanni. Þetta er ekki hindrun.

En það er verið að opna fyrir að það þurfi bara ekkert að fjalla um þetta í íslensku þjóðfélagi, það sé bara iðnrh. sem geti gengið frá hlutunum. Það er það sem verið er að togast á um.

Í sambandi við þetta lyfjafyrirtæki þá er það alveg merkilegt að það skuli vera notað hér sem einhver svipa á þingið, að þeir muni fara í fýlu og hætta við ef þetta sé ekki opnað. Dettur nokkrum hv. þm. í hug að segja frá svona? Þétta er svo fráleitt. Eða ætla menn að taka á móti svona hótunum ef það er virkilega rétt? Ég trúi þessu ekki. Enda skiptir þetta engu máli ef það eru á annað borð rök fyrir því að taka þá inn og eðlileg umfjöllun færi fram um málið hér á hv. Alþingi og við værum sammála um það, eða a.m.k. meiri hlutinn, að gera það. Að það mundi skipta sköpum. Ég veit ekki hvað er komið yfir þessa hv. þm.

Hv. þm. talar um að við séum eitthvað hræddir við útlendinga. Smáþjóð verður að umgangast útlent fjármagn með varúð. Mér er alveg sama hvort menn kalla það ótta eða ekki. Það er a.m.k. skynsemi að gera það.

Nei, ég skil eiginlega ekki þennan málflutning sem er hér hafður uppi í þessu máli. Það kemur berlega fram að hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafa engin rök fyrir málinu. Þeir segja: „Þetta er stjfrv." Hæstv. iðnrh. segir: „Það var samþykkt í Ed." Og hæstv. iðnrh. segir líka: "Sjútvrh. sagði í Ed. að hann og flokkurinn styddu frv.“ Hafi hæstv. sjútvrh. sagt þetta þá segir hann náttúrlega rangt til vegna þess að það hefur komið hérna berlega fram að flokkurinn sem slíkur styður það ekki, kannski meiri hlutinn, það veit ég ekkert um. Ef þetta er rétt haft eftir þá er það rangt hjá hæstv. ráðherra.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði að hér væri um að ræða traust eða ekki traust. Ég harðneita þessu. Það er ekkert um að ræða traust eða ekki traust. En það er óvarlegt að láta einn mann, burt séð hver hann er, hafa slíkt vald í hendur. Og eins og ég sagði hér áðan þá er ég hissa á að nokkur ráðherra, nokkur maður skuli vilja fá slíkt vald í hendur.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði að það væru skrýtnar uppákomur á milli stjórnarflokkanna og væri nú síðasta málið Arafatsmálið. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þetta er merkilegt. Óbreyttir þm. standa eiginlega frammi fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki sammála um neitt annað en að vera ósammála. (Gripið fram í.) Um það eru þeir þó sammála og það er auðvitað ekkert lítið.

En það merkilegasta sem kom fram í þessum umræðum var það sem hv. 4. þm. Reykn. sagði. Hann sagði eitthvað á þá leið að menn færu að tala út og suður þegar færi að nálgast kosningar. Þetta eru alveg ný tíðindi fyrir mér. Það er nú ekki ár síðan kosið var. Þetta eru í sjálfu sér upplýsingar um það að nú séu menn í stjórnarflokkunum orðnir hræddir um að það sé að styttast í kosningar. (Gripið fram í: Sumir.) Þrátt fyrir það að þeir séu sammála um að vera ósammála. Þetta eru mikil tíðindi að það sé upplýst að nú fari fram umræður um að það hljóti að styttast í kosningar. Og þó fer hæstv. fjmrh. um landið þvert og endilangt og spyr menn: „Brennur Róm?" Já, já, hann ætlar líklega að fá slökkvilið fyrir norðan og austan og jafnvel vestan, því að allir sem hafa sjón sjá að Róm brennur í þeim skilningi sem það hefur verið notað.

Ég held að það séu engin efnisleg rök fyrir því að samþykkja þetta frv. Ef þau eru til þá hafa þau ekki komið fram í þessum umræðum, ekki í umræðunum við 1. umr., nema síður væri. Og ef það er álit stjórnarliða að nú sé stutt í kosningar þá held ég að það ætti a.m.k. að bíða eftir því að nýr meiri hluti fjalli um þetta mál.