22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6021 í B-deild Alþingistíðinda. (4093)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. meiri hl. iðnn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég held að það sé nú oftúlkun á orðum mínum hér áðan að ég hafi verið að boða kosningar þegar ég tók svo til orða að menn töluðu oft fjálglega fyrir kosningar um iðnþróun og hátækni og því um líkt en gleymdu því svo þegar frá liði kosningum. Ég get ekki séð að þessi orð þýði það sem hér hefur verið út af þeim lagt. Hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvort það verður kosið fyrr eða síðar. Hvort einhverjir geta gefið yfirlýsingar um það veit ég ekki og ætla ekki að blanda mér í.

Að öðru leyti fáein orð út af orðum hv. síðasta ræðumanns, Stefáns Valgeirssonar 6. þm. Norðurl. e. Varðandi áhuga Evrópubandalagsins þá skulum við ekki ofgera það að þeir standi bara og bíði eftir því eða sækist eftir því að fá okkur upp í til sín. Ég held að staðan sé alls ekki sú. Eftir því sem ég veit næst þá mundu þeir ekki einu sinni taka við Noregi eins og á stendur hjá þeim eins og stendur.

Hins vegar um jarðarpartinn. Já, ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gilda alveg sérstök ákvæði um íslenskar auðlindir. Og ég tel landareign til íslenskra auðæfa og að þar eigi skilyrðin að vera þrengst. (Gripið fram í: En húsin hérna í bænum, hérna á þessu landi?) Já, það er nú minna mál með húsin, en að því er jarðarpartinn varðar, sem hv. þm. vitnaði í, þá flokka ég hann með auðlindum.

En hv. þm. sagði að tímarnir hefðu verið öðruvísi 1978 heldur 1977 eða 1976, að því er mér skildist, og þeir væru öðruvísi núna. Auðvitað eru tímarnir alltaf að breytast. En ég hefði hins vegar haldið að ef hann hefði rök fram að færa í þessu máli þá hefði hann af þingreynslu sinni getað miðlað okkur upplýsingum um það hvaða straumur af erlendum aðilum sóttist hér eftir því að setja fyrirtæki á fót og hvers konar mannraunir það voru hjá þáv. iðnrh. að veita viðnám gegn notkun þeirrar heimildar sem þá var í gildi og nú er meiningin að leiða í lög. Þá hefði hann haft eitthvað um þetta mál að segja, en því svaraði hann ekki aukateknu orði og því held ég að mál mitt hér áðan um það efni standi óhaggað.