22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6036 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

293. mál, áfengislög

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er nú trúlega að bera í bakkafullan lækinn að kveðja sér hljóðs við umræðu þessa máls svo langar tölur sem hér hafa verið settar á við umfjöllun þess í vetur með ítarlegum rökum með og á móti. Eftir þær umræður sé ég þó ekki að nein rök hafi afsannað það að verði sala á áfengum bjór leyfð þá muni heildarneysla áfengis aukast. Ég held að fáir treysti sér til að neita því. Söguleg rök mæla öll á móti því að áfengistegundum sé fjölgað hér.

Í nokkrar aldir hefur innflutningur og neysla víns verið hluti af lífi Íslendinga, einkum þá karlmanna hér áður fyrr, en jafnlengi hefur ofdrykkja verið fylgifiskur vínsins. Og það má minnast þess að þegar Alþingi var lagt niður á Þingvöllum rétt fyrir aldamótin 1800, þá var það m.a. vegna þess að það var orðið óstarfhæft vegna drykkjuskapar og óláta. Innflutningur víns náði hámarki um miðja síðustu öld, en þá tók bindindishreyfingin að láta á sér bera og ýmiss konar þjóðfélagsbreytingar gengu í garð. Bindindishreyfingin óx og dafnaði og þær fjöldahreyfingar aðrar, sem slitu barnsskónum upp úr aldamótunum, eins og ungmennafélagshreyfingin, verkalýðshreyfingin og kvenréttindahreyfingin, svo að ekki sé talað um hana, settu bindindismál á oddinn. Og það voru einmitt bindindismálin sem gerðu konum í Bandaríkjunum og Evrópu kleift að koma út úr húsum sínum og taka til máls á fundum og ruddu þær þannig braut baráttu kvenna fyrir mannréttindum. Hér á landi beittu konur sér mjög gegn drykkjuskap, stofnuðu félög, reistu hæli og stóðu stundum fyrir utan veitingahúsin hér í bænum, eða borginni nú, til að telja menn af því að fara inn. Konur í þá daga vildu bægja frá böli og bæta hag þeirra fjölmörgu kvenna sem lifðu við fátækt, eymd og ofbeldi vegna drykkjuskapar eiginmannsins. Og í ljósi þess hvern þátt bindindismálin eiga í frelsisbaráttu kvenna finnst mér skjóta skökku við ef kvenréttindakonur nútímans snúa við blaðinu og stuðla að aukinni drykkju vitandi um áfengisvandann í þjóðfélaginu.

En þau rök sem vega þó mun þyngra en sagan eru það ástand sem blasir við okkur í áfengis- og fíkniefnamálum. Kannanir sýna að börn og unglingar byrja yngri að drekka nú og fíkniefnaneysla fer vaxandi. Æ fleiri rúm á heilbrigðisstofnunum eru upptekin af fólki sem á við áfengisvanda að stríða. Samkvæmt upplýsingum lækna fer aldur þeirra sem koma til meðferðar sífellt lækkandi og þjóðfélagið ber gífurlegan kostnað af þeirri drykkju sem fer fram, ekki aðeins hvað snertir heilbrigðiskerfið heldur einnig í vinnutapi og alls kyns tjóni, sjáanlegu og ósýnilegu. Ofdrykkja er þjóðfélagsvandamál sem ber að sporna gegn með öllum tiltækum ráðum.

Hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er drykkja mun meiri en hér á landi og þar munar mest um bjórinn. Samkvæmt markaðslögmálum ættu aukið framboð og fleiri tegundir að þýða aukna neyslu og er því ekki ólíklegt að eftir nokkur ár yrði drykkja hér með svipuðum hætti og hjá frændum okkar verði sala bjórs og bruggun leyfð.

Ég vil minna á að í skýrslu frá danska heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að 80% allra vinnuslysa þar í landi séu rakin til öldrykkju, þess að menn séu ekki allsgáðir á vinnustað og slíkt er varla eftirsóknarvert ástand.

Við getum spurt að því hvers vegna mönnum sé svo mikið kappsmál að knýja þetta mál fram gegn þeim rökum sem fram hafa komið frá læknasamtökum, æskulýðssamtökum og fjölmörgum samtökum sem láta sig varða heilbrigðismál og félagsleg mál. Ég rek þau mótmæli ekki frekar hér, það hefur margoft verið gert í vetur og núna síðast áðan, en það ber einnig að minna á þá kenningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem ég trúi varla að menn vefengi, að meira framboð og betra aðgengi að vímuefnum skapi meiri neyslu og alvarlegri afleiðingar. Og þá spyrjum við: Hvað liggur að baki því ofurkappi sem lagt er á framgang þessa máls? Vafalaust eru ýmsar orsakir fyrir því. Ýmsir tala af hneykslun um þann tvískinnung sem viðgangist þar sem sumir hafi aðgang að áfengum bjór hér og aðrir ekki. Því beri að losa um og gera öllum frjálsan aðgang að þessari guðaveig, gera öllum jafnt undir höfði. Frá mínum bæjardyrum séð væri alveg eins hægt að taka fyrir tvískinnunginn með þeim hætti að leyfa ekki þær undanþágur sem viðgangast í meðförum bjórsins og þá yrði í leiðinni tekið fyrir þá háðung að tekjur af bjórsölu séu beinlínis reiknaðar inn í laun farmanna.

Það er fleira í farvatninu. Einhverjum er brátt, einhverjir hagsmunir eru í veði, arðsvon, hagnaðarvon einhverra aðila, þrýst er á afgreiðslu þessa máls. Og ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm.: Ætla þeir að samþykkja þetta frv. til hagnaðar fyrir einhverja einstaklinga en fyrirsjáanlegs ómælds tjóns fyrir samfélagið og þvert á íslenska heilbrigðisstefnu?