22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6038 í B-deild Alþingistíðinda. (4101)

293. mál, áfengislög

Guðrún J. Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að bæta nokkrum orðum við það sem aðrir andmælendur frv. hafa sagt, einkum og sér í lagi vegna þess að ég hef um nokkuð langt árabil unnið með ungu fólki. Ég þekki ósköp vel viðhorf ungs fólks til bjórs. Það lítur ekki á bjór sem alvarlegan hlut. Það lítur á bjór sem eitthvað sem allt í lagi er að dreypa á og drekka.

Þetta er endurspeglun á viðhorfum heimilanna. Þau hafa fengið þetta viðhorf að heiman og þetta er það viðhorf sem er í þjóðfélaginu. Þar af leiðandi mun bjórinn, ef inn verður leiddur, auka mjög drykkjuskap í landinu. Það er ekki nokkrum efa undirorpið að yngra fólk mun byrja að neyta áfengis á þennan hátt. Mér er í huga að það unga fólk, sem leiðist út í vímuefnaneyslu, byrjar allt á því að fá sér sopa af áfengi. Það getur líka byrjað á því að fá sér sopa af bjór og þá er fyrsta skrefið á leiðinni út í vímuefnin komið.

Mér finnst að við getum ekki, íslenskir þm., stuðlað að því að auka vímuefnaneyslu hér á landi. Eiturefnin fylgja í kjölfar bjórsins alveg hreint eins og í kjölfar brennivínsins og okkur ber að minnast þess.

Ég veit ekki hve margir hér inni eða margir sem á mál mitt hlýða hafa setið eða staðið fyrir framan bekk á morgni lífsins og horft á þetta æskufólk, hraust og þróttmikið, vitandi það að hugsanlega sé a.m.k. einn í þessum hóp sem verði áfengissýki að bráð. Þetta segir statistikkin. Ef við, með því að innleiða bjórinn, völdum því að 1,2–1,5 eða 2 í þessum sama æskuglaða hópi verða áfengisneyslu og jafnvel sterkri vímuefnaneyslu að bráð er illa farið fyrir Alþingi Íslendinga.