22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6040 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

293. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki þörf fyrir efnislega umræðu um þetta mál frekar. Svo mæta ræðu flutti hv. 5. þm. Reykn. þegar hann talaði fyrir sínu nál. að ég hygg að leit verði að því í þingsögunni að mikið rökfastari flutningur hafi átt sér stað á nál. sem minni hl. flytur og það er kannski ekkert skrýtið að það skuli vera hv. 5. þm. Reykn. sem reynir að hafa vit fyrir samþingsmönnum sínum frá Reykjanesi. Það hefur áður komið í hans hlut og skyldi engan undra þó að svo væri enn.

Ég tel aftur á móti að það verði kannski ekki undan því vikist að segja hér örfá orð vegna þess að hv. 2. þm. Reykn. virtist hafa tapað mjög áttum og valdi á skapi sínu þegar hann talaði fyrir þessu máli við 1. umr. Ég skil ekki þegar hann telur óeðlilegt, ef bréf berst Alþingi Íslendinga og er með höfundum, að nöfn höfundanna komi fram og lítur á að þeim sé svívirðing gerð með því að þeirra sé getið og það sé tryggt að þeir komi fram á spjöldum sögunnar. Ég leit svo á að ef hinir 133 læknar, sem töldu þetta mál þess eðlis að þeir vildu skipta sér af því, ættu að verða geymdir í þingsögunni sem flytjendur þessa bréfs væri það ekki hægt á annan hátt en að nöfn þeirra kæmu fram. Ég vona að hv. 2. þm. Reykn. sé ekki enn þeirrar skoðunar að þeim hafi verið svívirðing gjörð með þessu tiltæki eða að þingtíma hafi verið illa varið með því að tryggja það að nöfn þeirra yrðu á spjöldum sögunnar.

Annað atriði virtist hafa farið mjög í taugarnar á hv. þm. og hann kvartar undan skorti á drengskap. Ég lýsti því yfir að mér fyndist olíumalarlykt af þessu máli og ég útskýrði jafnframt hvað það var sem ég átti við þannig að hann mátti mjög vel skilja hvað það var. En sumir eru þannig að það þarf að segja þeim hlutina tvisvar, jafnvel þrisvar eða fjórum sinnum, áður en skilningurinn kemur og sumir eru þannig að þó það sé sagt við þá svo oft skilja þeir ekkert. Ég vil samt gera örlitla tilraun til þess að undirstrika hvað ég átti við.

Ég tel að fyrirtækið Olíumöl hafi verið stofnað í góðri trú, en ég er jafnsannfærður um það að hv. 2. þm. Reykn. gerir sér grein fyrir að þar áttu sér stað stórkostleg mistök og öll þau plön og góðu áform fóru á annan veg en ætlað var. Atvikin höguðu því svo að ég var við jarðarför þessa fyrirtækis. Ég vildi undirstrika það að mér sýndist sem bjartsýni flm., þeirra fjögurra sem tóku sig til og fluttu þetta frv. frá nefnd, eins og þeir segja sjálfir, og góð áform muni enda á svipaðan hátt. Þetta var sú merking sem ég taldi að væri rétt að kæmi hér fram og yrði undirstrikuð því það getur verið að þar sannist enn hinar gömlu ljóðlínur „Annar eins maður og Oliver Lodge fer ekki með neina lygi“, að það sannist enn að mönnum geti skjátlast jafnvel þótt veröldin hafi hampað þeim upp í þá stöðu að vera þingflokksformenn Sjálfstfl. Þetta var það sem ég vildi undirstrika, að þeim gæti skjátlast, og það var það sem ég var að koma hér á framfæri og ég vænti þess að hv. 2. þm. Reykn. gerði sér grein fyrir á sínum tíma. Svo var ekki.

Hann taldi rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því að ég hefði lent í því sem framleiðandi á andakjöti að það hefði verið með sýklum. (ÓE: Nei, ég meinti ...) Og við skulum ekkert skorast undan því að ræða það örlítið, sérstaklega af því að hv. 2. þm. Reykn. er kominn hér í salinn og sennilega vel móttækilegur fyrir upplýsingar þar um.

Það er nú svo með þessa blessaða sýkla að þeir eru svo smáir að þeir sjást ekki með berum augum og hvorki gerði ég það vísvitandi né af ráðnum hug til að klekkja á íslensku samfélagi að búa við það að örfáir einstaklingar í þjóðfélaginu fullyrtu að það væri baneitrað, þetta kjöt sem þarna væri verið að framleiða. Enginn veiktist, enginn fór á sjúkrahús og enginn dó mér vitanlega. Sjálfur át ég mikið af þessu kjöti og sé ekki betur en ég hafi þrifist vel, en það er kannski rétt að geta þess að það virtist koma fram mjög skjótt að einn aðili hafði sérstakan áhuga á þessu máli, einn aðili á Íslandi. Það var Morgunblaðið, og allur þess málflutningur gekk út á tvennt, annars vegar að vinna jafnrækilega að því og hugsanlegt var að ég hefði sem mestan fjárhagslegan skaða af tiltækinu. Það tókst þeim eiginlega mjög vel því að þá framleiðslu sem ég var með á gæsum á þessum tíma gerðu þeir að óseljanlegri vöru og ég verð náttúrlega að óska þeim sérstaklega til hamingju með þann vopnaburð og þeim skutulsveini blaðsins, hv. 2. þm. Reykn., með það að vissulega var hægt að fagna sigri hvað það snerti. Ég held aftur á móti að þetta hafi e.t.v. fyrst og fremst verið gert vegna þess að undirritaður var starfandi alþm. fyrir annan stjórnmálaflokk. Og þetta er kannski rétt að komi hér fram fyrst hv. 2. þm. Reykn. er að berja sér svo mjög undan skorti á drengskap.

Hins vegar fannst mér, þegar þessir atburðir gerðust nú seinast og Búðardalur kom inn í þessa mynd, að þá hafi það komið skýrast fram hvað þessi vopnaburður er í sjálfum sér fráleitur og hlýtur að eiga lítinn rétt á sér. Það væri nefnilega fróðlegt að reikna það út hvað Búðardalur skaðaðist mikið á umræðunni um salmónelluna og hvers vegna, á þeirri stundu, menn höfðu vit á því að draga framleiðandann ekki fram í dagsljósið, hvers vegna menn höfðu vit á því þá. Það er nefnilega vissulega hægt að segja sem svo að sú framför hefði átt sér stað, jafnvel hægt að tala um framför hjá Morgunblaðinu líka, að þeim var ágætlega ljóst að framleiðandinn sem þá varð fyrir þessu óláni var í sjálfu sér alsaklaus af því, trúlegast hafði þetta borist með fóðri þó að það sé erfitt að átta sig á því, og menn gerðu sér grein fyrir því að nú væri rétt að vera ekki að djöflast á honum. Aftur á móti töldu menn sanngjarnt að ráðast á þorp vestur í Dalasýslu með slíku offorsi að ég ætla að fullyrða það hér og nú að þar varð skaðinn af tiltækinu gífurlegur fyrir alla þjónustustarfsemi á staðnum. Og kannski er það nú svo að einhverjir á því svæði hafi mátt þola verulegan fjárhagslegan skaða vegna þessa tiltækis.

Ég ætla, herra forseti, aðeins að bæta örfáum atriðum við. Ég vil láta það koma fram mjög skýrt að þó að hv. flm. þessa frv. legði á það áherslu að því væri vísað til allshn. aftur til umfjöllunar vekur það enga undrun hjá mér að nefndin flytur enga brtt. við eigið frv. Þeim hefur sem sagt farist eins og sagt er að eitt sinn hafi átt sér stað og menn töluðu nú um í gamni reyndar að drottinn hafi litið yfir verk sitt og séð að það var harla gott. En engu að síður kemur hér fram og vil ég þó ekki rengja það að þeir hafi talið sig þurfa að skoða frv. á nokkrum fundum. Það verður náttúrlega að virða við mennina hafi þeir lagt slíka vinnu í málið. Samt sem áður er þetta niðurstaðan. Þeir leggja til að eigið frv. eftir nákvæmlega eigin athugun verði samþykkt í deildinni og það kemur mér ekki á óvart.