22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6046 í B-deild Alþingistíðinda. (4107)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál sem hér er á dagskrá, Háskólinn á Akureyri, er að vísu mál sem ég hef ekki mjög fylgst með, en engu að síður vildi ég láta álit mitt í ljós á frv. vegna þess að ég tel að þetta sé mál sem er ákaflega sérstætt, en jafnframt ákaflega þýðingarmikið. Ég hef nokkuð orðið var við gagnrýni á málið eins og raunar kom fram í orðum hæstv. menntmrh. En ég vildi lýsa minni skoðun í örfáum orðum.

Í fyrsta lagi lýsi ég fylgi mínu við frv. og ég fagna því sem kom fram hjá hæstv. menntmrh., sem hann lagði áherslu á, að áfram yrði þungamiðja íslenskra rannsókna í Háskóla Íslands. Það er raunar sjálfsagður hlutur. Það sem ég tel hins vegar merkast við þetta mál er að það er, að mínu mati, nánast eini jákvæði votturinn í langan tíma í íslenskum stjórnmálum þar sem íslensk stjórnvöld reyna af miklum myndarskap að reisa rönd við þeirri öfugþróun í byggðaþróun sem hér hefur orðið um langa hríð. Ég skal fúslega viðurkenna að þarna þurfti nokkurn stórhug til. En ef einhvern tíma á að takast að spyrna fæti við þýðir ekkert minna en að taka svo til hendi eins og fyrrv. hæstv. menntmrh. gerði í þessu efni.

Háskóli Íslands hefur auðvitað um langan aldur verið, ekki kannski fjársveltur, en þar hefur löngum vantað fé. En við skulum líka líta á ýmsar aðstæður sem þar hafa verið. Ef við lítum t.d. á lagadeild Háskóla Íslands mun það mála sannast að þar munu stundum vera á milli eitt og tvö hundruð nemendur í sama tímanum hjá einum og sama prófessor. Það gefur auga leið hvernig vinnuaðstæður eru þegar slíkt á sér stað. Það má sjálfsagt velta því fyrir sér að útibúshugmyndin hefði líka komið þarna til greina og e.t.v. hefði það verið heppileg lausn til þess að ná þeim markmiðum sem ég er að leggja áherslu á. Engu að síður er þessi ákvörðun tekin, að stofna sérstakan háskóla, og það sýnist mér vera gert af enn meiri stórhug og þess vegna fagna ég því sérstaklega.

Þetta mun, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði næst á undan mér, styrkja byggðir Eyjafjarðar. Ég vil hnykkja hér aðeins frekar á og lýsa skoðun minni: Þetta mun styrkja alla landsbyggð á Íslandi ef það tekst eins og hugur manna stendur til. Hér er um að ræða gleðilegan viðnáms- og viðreisnarhug fyrir hönd landsbyggðarinnar allrar sem ég tel fyllilega ástæðu til að fagna.

Það er dýrt að halda úti skóla. Það er þeim mun dýrara sem ofar kemur í skólastigann. Erlendis er þróunin nánast hvarvetna sú að menn víla ekki fyrir sér að hreyfa á milli dýra kennslukrafta, jafnvel á milli fylkja og nánast á milli landa, t.d. fylkja í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Það er þar daglegt brauð margra manna með sérhæfða þekkingu að fara langar vegalengdir á milli háskóla. Ekki væri það nein goðgá hér á landi heldur, hjá fátækri þjóð. En við skulum ekki gleyma því aðalatriði að við erum tiltölulega fátæk þjóð í fremur stóru landi miðað við mannfjölda og við búum við þennan sérstaka vanda að byggðaþróunin hefur verið óhagstæð um langan tíma. Hér er vottur þess að verið er að snúa henni til réttrar áttar. Þess vegna fagna ég frv.