23.03.1988
Sameinað þing: 64. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6047 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

Minning Sveins Guðmundssonar

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Sveinn Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri og alþingismaður, andaðist á Landakotsspítala í fyrradag, mánudaginn 21. mars, 75 ára að aldri.

Sveinn Guðmundsson var fæddur á Eyrarbakka 27. ágúst 1912. Foreldrar hans voru Guðmundur bóksali þar og bókhaldari Guðmundsson, bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum Péturssonar, og síðari kona hans Snjólaug Jakobína Sveinsdóttir, bónda í Bjarnastaðahlíð í Skagafirði Guðmundssonar. Hann lauk prófi í rennismíði í Reykjavík árið 1933. Eftir það fór hann til náms í vélfræði og lauk prófi í Tekniska Institutet í Stokkhólmi 1936. Að því loknu var hann vélfræðingur við Vélsmiðjuna Héðin í Reykjavík til 1943, en síðan forstjóri Héðins og meðeigandi. Jafnframt var hann forstjóri tveggja annarra hlutafélaga, Stálsmiðjunnar og Járnsteypunnar.

Hann var í undirbúningsnefnd að stofnun Iðnaðarbankans 1951 og í bankaráði hans 1951–1968. Í stjórn Iðnaðarmálastofnunar Íslands var hann 1956–1962, var formaður Sýningarsamtaka atvinnuveganna frá stofnun þess hlutafélags 1957–1966.

Í Rannsóknaráði ríkisins átti,hann sæti 1965–1971 og á árinu 1970 var hann skipaður í nefnd til að semja frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins. Auk þessa var hann árum saman í stjórn Vinnuveitendasambands Íslands, Félags íslenskra iðnrekenda og Verslunarráðs.

Í alþingiskosningunum 1956 var hann kjörinn varaþingmaður Sjálfstfl. í Reykjavík og sat fyrsta sinn á Alþingi vorið 1958. Í alþingiskosningunum 1963 var hann aftur kjörinn varaþingmaður í Reykjavík og tók sæti þrisvar á tveim fyrstu þingum kjörtímabilsins. Vorið 1965 hlaut hann fast sæti á Alþingi við þingmennskuafsal aðalmanns og sat á þingi til vors 1971, var landskjörinn alþingismaður frá 1967. Alls sat hann á níu þingum.

Sveinn Guðmundsson átti sér langan og farsælan starfsferil. Hann kom ungur til starfa í vel reknu fyrirtæki og tók við stjórn þess að nokkrum árum liðnum. Undir stjórn hans og samstarfsmanna hans efldist það síðan og þróaðist í stórfyrirtæki. Ásamt störfum um áratugi innan eigin iðnrekstrar og verslunar vann Sveinn Guðmundsson mikið starf að félagsmálum. Hann var félagslyndur og ráðhollur, starfsamur og starfhæfur og hlaut að taka að sér stjórnarstörf í ýmsum félögum og stofnunum. Á Alþingi sem annars staðar sinnti hann öðru fremur málefnum iðnaðar. Með eðlislægri prúðmennsku og festu gekk hann að ævistarfi sínu og gat sér hvarvetna gott orð, var drengskaparmaður og lagði þarft og gott til mála.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að minnast Sveins Guðmundssonar með því að rísa úr sætum. - [Þingmenn risu úr sætum.]