23.03.1988
Efri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6049 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

389. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem er á þskj. 735.

Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn níu manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmrn. uppfylla þau skilyrði sem Alþingi hefur venjulega sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum.

Í 2. gr. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar og gilt hafa undanfarin ár.

Þá liggja fyrir í ráðuneytinu nokkrar umsóknir um ríkisborgararétt sem ekki uppfylla öll skilyrði sem sett hafa verið fyrir veitingu ríkisborgararéttar og verða þær umsóknir sendar allshn. þessarar hv. deildar til frekari athugunar.

Ég vil geta þess hér að á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Osló, bar Dorte Bennedsen, þingmaður í Danmörku, fram fyrirspurn til íslensku ríkisstjórnarinnar um það hvers vegna Ísland hefði enn ekki gerst aðili að samkomulagi hinna Norðurlandaríkjanna um ríkisborgararétt frá árinu 1969, sem breytt var með samkomulagi milli þessara fjögurra ríkja árið 1977, en samkomulagið fjallar um gagnkvæman rétt Norðurlandabúa til að öðlast ríkisborgararétt í búsetulandi, þar á meðal um styttingu fresta til þess að öðlast slíkan rétt en um þetta er nú fjallað í 9. gr. b. í núgildandi lögum um ríkisborgararétt, nr. 100 frá árinu 1952, eins og þeim var breytt með lögum frá Alþingi árið 1982.

Tilefni fyrirspurnar Dorte Bennedsen mun ekki síst hafa verið það að hún hafði orðið þess áskynja að íslenskir borgarar, sem vildu öðlast danskt ríkisfang, nutu ekki sömu réttinda í þessu efni og aðrir Norðurlandabúar. Ég svaraði þessari fyrirspurn á Norðurlandaráðsþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og skýrði m.a. frá því að Ísland hefði ekki tekið þátt í gerð þessa samkomulags um gagnkvæman ríkisborgararétt sem gert var af Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð árið 1969 né heldur tekið þátt í að gera þær breytingar sem á því voru samþykktar árið 1977. Ég benti hins vegar á að þær reglur sem fylgt hefur verið varðandi veitingu íslensks ríkisborgararéttar til útlendinga hafa að forminu til verið strangari á Íslandi en í öðrum ríkjum Norðurlanda en í reynd hafa Norðurlandabúar fengið ríkisborgararétt á Íslandi samkvæmt sérstökum vinnureglum sem nefndir þingsins hafa sett sér, reyndar eftir helmingi skemmri búsetu á Íslandi en fólk sem upprunnið er annars staðar.

Við breytingu á lögunum um ríkisborgararétt, sem tóku gildi árið 1982, var reyndar bætt við ákvæði sem heimilaði að gerast aðili að samkomulaginu frá 1969 með breytingunni frá 1977. Af einhverjum ástæðum hefur ekki orðið úr framkvæmdum í þessu efni en með lagabreytingunni fékk ríkisstjórnin heimild til þess að semja um aðild að samkomulaginu en af henni hefur ekki orðið. Á þingi Norðurlandaráðs á dögunum skýrði ég frá því að ríkisstjórnin hefði nú ákveðið að vinna að því að Ísland gerðist aðili að samkomulaginu og hefur þegar verið hafinn undirbúningur að því.

Þá er rétt að geta þess einnig að á vegum Evrópuráðsins er nú hafin endurskoðun á samningi Evrópuríkjanna frá árinu 1963 varðandi tvöfaldan ríkisborgararétt, einkum með tilliti til þess hvernig beri að haga ríkisborgararétti maka þegar makar eru hvor af sínu þjóðerni. Er talið æskilegt að maki af öðru þjóðerni geti sem fyrst öðlast ríkisfang þess ríkis sem hjónin búa í ef það er upprunaríki maka hans. Ákvæði, sem víða eru í lögum, um að makinn missi sinn fyrri ríkisborgararétt við það að fá nýjan, eru oft talin standa í vegi fyrir því að sótt sé um ríkisborgararétt í því ríki sem hinn erlendi maki hefur tekið sér búfestu í.

Þetta mál er nú til athugunar, eins og ég nefndi áðan, á vettvangi Evrópuráðsins og verður senn reynt að komast að niðurstöðu um það hvernig best sé að haga ríkisborgararéttindum fyrir hjón sem eru sitt af hvoru þjóðerninu.

Með þessum orðum, hæstv. forseti, legg ég til að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.