03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

58. mál, Kópavogshælið

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá síðari fyrirspyrjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, mun þessi fsp. vera fram komin vegna umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu og vegna ítarlegrar ályktunar frá landsþingi Þroskahjálpar nýverið um skipulag og framtíðarhlutverk Kópavogshælisins og svar mitt tekur þá væntanlega eitthvert mið af því.

Hv. fyrirspyrjandi þekkir nokkuð til þessara mála. Eins og fram kom hjá honum á hann sæti í stjórnarnefnd ríkisspítalanna og veit þess vegna nokkuð hvernig mál hafa þróast og hver hefur verið aðdragandi að stefnumótun fyrir Kópavogshælið.

Það hefur í mörg ár verið stefna heilbrigðisyfirvalda að allir sem af Kópavogshæli geta útskrifast flytji þaðan, annaðhvort á sambýli eða í annað húsnæði. Kópavogshæli er heilbrigðisstofnun og þar gilda sömu reglur og um aðrar heilbrigðisstofnanir. Þar skulu vistmenn ekki dvelja lengur en nauðsynlegt getur talist.

Fyrir tveimur árum eða nánar tiltekið 11. okt. 1985 var sett sérstök reglugerð fyrir Kópavogshælið. Samkvæmt þeirri reglugerð er það hlutverk Kópavogshælisins að taka til þjálfunar, uppeldis og vistunar vangefna sem sakir fötlunar sinnar verða að dveljast á sjúkrahúsum í skilningi laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, eða á öðrum deildum sem frekar eru skilgreindar í reglugerðinni og falla undir ákvæði 7. gr. laga nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

Í þessari reglugerð eru starfsemi, yfirstjórn og rekstur Kópavogshælis skilgreind allnákvæmlega svo og það sérmenntaða starfsfólk er á stofnuninni á að starfa. Þá er starfandi við stofnunina sérstakt ráðgefandi stofnunarráð sem í eiga sæti helstu sérmenntaðir starfsmenn stofnunarinnar en auk þess fulltrúi frá foreldra- og vinafélagi stofnunarinnar, frá starfsmannaráði og frá félmrn. og er honum, þ.e. fulltrúa félmrn., sérstaklega ætlað að gæta hagsmuna svæðisstjórnar skv. lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

Kópavogshælið er undir yfirstjórn heilbr.- og trmrn., en dagleg stjórn er undir faglegri stjórnarnefnd og forstjóra ríkisspítala svo og sérstökum framkvæmdastjóra sem sér um daglegan rekstur.

Í ákvæði til bráðabirgða í reglugerðinni er gert ráð fyrir því að á næstu tíu árum eftir gildistöku reglugerðarinnar eigi að útskrifa á sambýli eða aðrar viðeigandi stofnanir í heimabyggð a.m.k. 75 einstaklinga þannig að miðað við þann húsakost sem á hælinu er í dag verði þar í framtíð ekki meira en 100 einstaklingar. Á þeim tveimur árum síðan reglugerðin var sett hefur verið reynt að framfylgja þessu ákvæði, en bæði er það að sambýli til að taka við erfiðum einstaklingum af Kópavogshæli hafa ekki verið finnanleg og hitt að veruleg ásókn er úr þjóðfélaginu, bæði af sambýlum og frá öðrum stofnunum, um að koma vistmönnum inn á Kópavogshælið. Af þeim sökum hefur enn ekki orðið nein veruleg fækkun vistmanna á Kópavogshæli.

Af hálfu heilbr.- og trmrn. var vel vandað til þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir og hún sett að vel athuguðu máli. Sérfræðinga greinir nokkuð á um hversu margir og hversu fljótt vistmenn skuli eða geti útskrifast. Þar eru nefndar tölur, annars vegar í þessum tillögum frá Þroskahjálp sem ég nefndi áður, að útskrifa megi og fækka á 7–8 árum um 120 vistmenn og væru þá kannski ekki nema um 30 vistmenn þar eftir, 30–40. Hins vegar er ákvæði reglugerðarinnar, sem samin var í samráði við lækna Kópavogshælisins, þar sem gert er ráð fyrir útskrift og fækkunum um 50–60 manns á 9–10 árum. Hér munar miklu og skoðanir virðast nokkuð skiptar.

Hér kemur einnig mat á þáttum eins og því hvar einstaklingum sem lengi hafa vistast á Kópavogshæli muni líða best, annars vegar í umhverfi sem þeir þekkja eða hins vegar nýju umhverfi með færra sambýlisfólki.

Hvað sem öðru líður er ljóst að miklar breytingar verða á rekstri Kópavogshælisins á næstu tíu árum. Stefnt hefur verið að því að hælið verði eingöngu heilbrigðisstofnun. Þangað hefur t.d. nýverið verið ráðinn hjúkrunarforstjóri til að leggja áherslu á þessa stefnu. Hversu hröð sem þessi þróun kann að verða hafa ríkisspítalar mikla þörf fyrir húsnæði Kópavogshælisins, bæði fyrir öldrunar- og endurhæfingarþjónustu, strax og þar losnar pláss. Húsnæði öldrunarlækningadeildar í Hátúni, sem ríkisspítalarnir hafa haft afnot af, hefur t.d. verið sagt upp. Nýverið hefur í stjórnarnefnd ríkisspítala verið rætt um hugsanlega vistun heila- og mænuskaddaðra á Kópavogshælinu. Engar formlegar umræður hafa farið fram innan stjórnarnefndar ríkisspítalanna um hugsanlega sölu á hælinu eða lóðum, en hvernig svo sem mál hælisins þróast er ljóst að ríkisspítalar og heilbrigðisþjónustan almennt hafa mikla þörf fyrir bæði húsnæði og landrými.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar viðhorfsbreytingar í þjóðfélaginu til málefna fatlaðra og tel ég það mjög til góðs. Hugmyndir stjórnvalda og nýjar hugmyndir frá landssambandinu Þroskahjálp um þróun og skipulag á Kópavogshæli hníga að verulegu leyti í sömu átt. Mér finnst því sjálfsagt að taka allar ábendingar og tillögur til vinsamlegrar athugunar, en endanlegt svar mitt við þessu er það að fyrst um sinn mun starfsemi og framtíð Kópavogshælisins markast af þeim starfsreglum sem í fyrrgreindri reglugerð um hælið er að finna.