23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6075 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

Frumvarp til áfengislaga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta er orðið ákaflega einkennilegt mál. Forseti kemur sér hjá því að skýra frá því hverjir það voru sem óskuðu eftir því að fresta þessari atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðslan er svo boðuð á þeim tíma sem eiga að hefjast fundir í þingflokkum, kl. 5. Það hlýtur þá að vera samkomulag um að hafa ekki þingflokkafundi í dag því að það er vitað að í þessum tveimur málum verða mörg nafnaköll. þ.e. ef það kemur oft fyrir að þarf að greiða atkvæði á annað borð í þessum málum. Tíminn sem valinn er, aðferðin sem notuð er - ja, ég verð að segja að ég held að það sé einsdæmi. Ég man ekki eftir svona uppákomu fyrr. En ég vil fyrst og fremst vekja athygli á þessum vinnubrögðum þannig að það sé alveg ljóst að hér eru bolabrögð í frammi.